Kirkju- og manntalsbækur

Þriðjudaginn 05. febrúar 2002, kl. 16:33:40 (4061)

2002-02-05 16:33:40# 127. lþ. 69.5 fundur 372. mál: #A kirkju- og manntalsbækur# (kostnaður) frv., dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 127. lþ.

[16:33]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum um kirkju- og manntalsbækur, nr. 3/1945.

Hér er um tiltölulega veigalitla breytingu að ræða á lögunum. Stefnt er að því að bæta nýjum málslið við 2. gr. laganna þess efnis að andvirði kirkju- og manntalsbóka greiðist af íslensku þjóðkirkjunni og öðrum skráðum trúfélögum í stað þess að það greiðist úr ríkissjóði eins og nú er kveðið á um.

Á síðasta ári lauk endurskoðun á kirkjubókum þar sem gerðar voru mjög umtalsverðar breytingar á formi og gerð kirkjubókanna. Við hönnun þeirra var uppsetning og efnisinnihald jöfnum höndum sniðið að þörfum þjóðkirkjunnar og annarra skráðra trúfélaga, eftir því sem unnt var, en bækurnar eru að grunni til almennur og afar nauðsynlegur grundvöllur að almannaskráningu. Í kjölfar endurhönnunar kirkjubókanna tók þjóðkirkjan hina nýju gerð þeirra í notkun frá 1. júlí árið 2000. Prentað var stórt upplag þannig að enginn kostnaður mun falla til á næstu árum.

Með þeim breytingum sem orðið hafa á kirkjulöggjöfinni á síðustu árum hafa nær öll verkefni sem fyrrum voru hjá dóms- og kirkjumrn. verið flutt til þjóðkirkjunnar eða stofnana á hennar vegum, svo sem prestssetrasjóðs. Með síðustu lagabreytingu skal rekstrarkostnaður þjónandi presta og prófasta vegna embætta þeirra nú greiddur frá biskupsstofu samkvæmt reglum sem kirkjuþing setur, sbr. lög nr. 141/1998.

Samkvæmt framansögðu þykir réttast að þjóðkirkjan og þau trúfélög sem í hlut eiga standi sjálf straum af kostnaði af manntals- og kirkjubókum.

Ég hef í meginatriðum gert grein fyrir efni frv. og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allshn. og 2. umr.