Kirkju- og manntalsbækur

Þriðjudaginn 05. febrúar 2002, kl. 16:35:32 (4062)

2002-02-05 16:35:32# 127. lþ. 69.5 fundur 372. mál: #A kirkju- og manntalsbækur# (kostnaður) frv., GunnS
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 127. lþ.

[16:35]

Gunnlaugur Stefánsson:

Herra forseti. Hér er lagt til að kostnaður við hönnun, útgáfu og prentun embættisbóka kirkjunnar sem hingað til hefur verið greiddur af ráðuneytinu, kirkjumrn., verði núna greiddur af biskupsstofu og vísað í lög um rekstrarkostnað embættanna frá 1998.

Það vakna fáeinar spurningar í sambandi við þetta mál. Rétt er að spyrja fyrst: Hvers eign eru þessar bækur? Eru prestsþjónustubækurnar eign embættanna, kirkjunnar eða hins opinbera? Líklega hefur hið opinbera litið svo á, allt fram til þessa, að þessar bækur væru eign hins opinbera, a.m.k. þegar kemur að því að þær hafa verið fylltar. Þá kallar hið opinbera eftir þessum bókum til varðveislu á Þjóðskjalasafninu og þar eru þessar bækur varðveittar.

Ég vil nota þetta tækifæri til að hrósa sérstaklega starfsfólkinu á Þjóðskjalasafninu fyrir afburðafórnfúsa og -góða þjónustu við það að veita upplýsingar úr kirkjubókum og einnig við það að gefa prestum ljósrit af bókunum sem skilað er.

Ef það kemur til þess að kirkjan borgi fyrir útgáfu á þessum bókum er náttúrlega alveg ljóst að þessar bækur eru kirkjuleg eign. Og þá vaknar spurningin um skilin á bókunum til Þjóðskjalasafnsins. Þá er ekki óeðlilegt að menn velti fyrir sér þessari spurningu í markaðsþjóðfélagi nútímans þar sem allt er til sölu --- og þessi ríkisstjórn hefur haft sérstaka forgöngu um að setja verðmiða á hvað sem er til að selja --- hvort ekki skapist þá grundvöllur til þess að Þjóðskjalasafnið kaupi þessar bækur af kirkjunni. Þá værum við aftur komin á sama stað --- hið opinbera borgar bækurnar þrátt fyrir þessi lög. Ég tel rétt að hv. nefnd sem fjallar um þetta mál, allshn., skoði það frá upphafi til enda.

Í öðru lagi má benda á að, eins og getið er um í grg. með frv., fyrir einu og hálfu ári varð breyting á útgáfu þessara bóka. Áður var þetta ein prestsþjónustubók eða embættisbók þar sem allar athafnir voru skráðar inn. Nú eru þær fjórar þar sem færðar eru inn skírnir, hjónavígslur, útfarir og fermingar.

Skírnir, hjónavígslur og útfarir, þetta eru hvort tveggja í senn trúarlegar og borgaralegar athafnir --- og veraldlegar, og um þær fjalla lög. Nafngjöfin er bundin við skírnina þannig að presti og forstöðumanni trúfélags er skylt að veita hinu opinbera upplýsingar um nafngjöf barns. Um hjónavígsluna þarf ekki að fara mörgum orðum. Þar kemur glöggt í ljós að er hvort tveggja um veraldlegan og trúarlegan gjörning að ræða innan kirkjunnar og á vegum trúfélaga. Sama gildir um útfarir.

Í þessar þrjár bækur er því verið að skrá opinberar athafnir. Þá hlýtur sú spurning að vakna hvort ríkissjóður eigi ekki með beinum hætti að taka þátt í þeim kostnaði sem þessum athöfnum fylgir, m.a. þeim að skrá þessar athafnir í bók.

Þannig efast ég um að þessi kostnaður geti túlkast eða fallið undir rekstrarkostnað embættanna. Ég er ekki að segja að þetta mál sé byggt á einhverjum misskilningi. Ég hef reynt að fara í gegnum álitsgerðir og skýrslur og málefni sem lögð voru fyrir síðasta kirkjuþing og ég hef ekki séð að þetta mál hafi verið til umræðu þar. Það breytir kannski ekki öllu en þó því að mér finnst eðlilegt að a.m.k. afstaða þjóðkirkjunnar liggi fyrir í málinu, og ég veit að hv. allshn. mun leita eftir þeirri afstöðu.

Herra forseti. Ég vildi benda á þessi sjónarmið af því að að mínu mati er það ekki ljóst að þessi kostnaður eigi að færast frá kirkjumrn., eins og getið er um í lögunum, og yfir á kirkjuna. Það hefur ekki komið fram í þessari umræðu hvað þetta er mikill kostnaður. Ég trúi því að þetta sé ekki stór kostnaður á ári en þetta er grundvallarspurning. Þetta er grundvallarspurning um samskipti ríkis og kirkju.

Eins og kemur fram í grg. með frv. hefur orðið aðskilnaður á milli ríkis og kirkju, og er það vel. Ég vil þakka hæstv. kirkjumrh. fyrir þátttöku hennar í því stóra máli af því að ég veit að hæstv. kirkjumrh. átti stóran hlut í því að sá gjörningur náði fram að ganga, bæði á sínum tíma sem hv. formaður allshn. og nú sem hæstv. kirkjumrh.

Ég beini þessum ábendingum mínum til hv. allshn. af því að þetta snertir grundvallarspurningu um samband ríkis og kirkju.