Kirkju- og manntalsbækur

Þriðjudaginn 05. febrúar 2002, kl. 16:43:59 (4063)

2002-02-05 16:43:59# 127. lþ. 69.5 fundur 372. mál: #A kirkju- og manntalsbækur# (kostnaður) frv., KVM
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 127. lþ.

[16:43]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Enn ræðum við hér málefni kirkjunnar og hluti sem að henni lúta. Kirkjubækur varðveita miklar heimildir. Þær eru geymdar á Þjóðskjalasafni, sem til eru, og eru til nokkurra alda gamlar kirkjubækur. Í okkar tölvuvædda samfélagi getum við leitt hugann að því hversu mikið verður varðveitt af því sem er að gerast í samtíma okkar og hversu mikið verður til skráð eftir svo sem tvær aldir.

Því hefur verið haldið fram að allur þessi tölvubúnaður sem geymir ýmsa grunna muni breytast og jafnframt ýmis forrit sem hafa t.d. verið notuð en eru ekki lengur í notkun. Jafnvel er ekki hægt að sækja upplýsingar sem menn voru vissir um að væri hægt að ná í. Meðal annars þess vegna erum við að skrá í kirkjubækur, upp á heimildir og náttúrlega ýmsa lagalega gerninga. Okkur prestum er gert að skrifa með bleki sem er kallað ,,varanlegt blek``. Þetta hefur ekki einungis varðveislugildi fyrir kirkjuna heldur einnig fyrir samfélagið allt og þess vegna er gert ráð fyrir því í lögum að þessar bækur séu útfylltar og gerðar og að þær séu settar á Þjóðskjalasafnið.

Þess vegna tel ég það vera alveg út úr kú, herra forseti, eins og sagt er stundum, að koma fram með þetta frv. Það sýnir gott samstarf og góðan gagnkvæman skilning á mikilvægi þessara bóka á milli ríkis og kirkju að ríkið skuli leggja bækurnar til en þjónar kirkjunnar skuli skrá í þær. Allir þeir sem eru látnir og þeir sem ganga í heilagt hjónaband innan vébanda kirkjunnar og þeir sem eru skírðir skrást í þessar bækur, og jafnvel aðrar upplýsingar sem skipta máli þegar fram í sækir. Því tek ég undir hvatningarorð hv. þm. Gunnlaugs Stefánssonar um að þetta frv. verði ekki að lögum.

Vissulega er það rétt að breytingar voru gerðar á bókunum til hagræðis --- ein var bókin en nú eru þær orðnar fjórar. Þrjár bækurnar eru þannig að þær hafa sama tilgang og gamla bókin, þ.e. fyrir athafnir sem eru, eins og kom fram í ræðu hv. síðasta ræðumanns, skírnir, hjónavígslur og greftranir. Því tel ég mjög eðlilegt að kirkjan sé ekki látin greiða fyrir þessar bækur nema það verði þá þannig að kirkjan selji Þjóðskjalasafninu eða ríkinu bækurnar til baka.

Er ekki líka nóg komið? Var ekki verið að klípa umtalsvert af sóknargjöldunum rétt fyrir jólin? Höggvum ekki tvisvar í sama knérunn.