Kirkjubyggingasjóður

Þriðjudaginn 05. febrúar 2002, kl. 17:01:53 (4067)

2002-02-05 17:01:53# 127. lþ. 69.7 fundur 428. mál: #A kirkjubyggingasjóður# frv., dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 127. lþ.

[17:01]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um brottfall laga um kirkjubyggingasjóð, nr. 21/1981, og að sjóðurinn verði þar með lagður niður.

Kirkjubyggingasjóður var stofnaður með lögum nr. 43 frá 1954. Frumvarp þetta er samið að tilhlutan kirkjuráðs þjóðkirkjunnar og er það til komið vegna breytinga sem nýlega hafa verið gerðar á reglum um lán til sókna með stofnun ábyrgðardeildar Jöfnunarsjóðs sókna.

Hlutverk kirkjubyggingasjóðs hefur verið að veita lán til kirkjubygginga og endurbóta á eldri kirkjum. Á undanförnum árum hafa lán aðeins lítillega verið veitt úr sjóðnum enda hefur fé ekki verið veitt til hans af fjárlögum um árabil. Hefur rekstur hans því fyrst og fremst snúist um varðveislu eigna, sem eru sjóður og útistandandi kröfur hjá sóknunum sem hafa fengið lán. Tekjur sjóðsins árið 2000 voru eingöngu fjármunatekjur. Námu þær 8,7 millj. kr. af löngum lánum og 4,3 millj. kr. af skammtímakröfum og bankainnstæðum. Árið 1999 var ekkert nýtt lán veitt. Árið 2000 varð 6,2 millj. kr. tekjuafgangur af rekstri kirkjubyggingasjóðs. Eigið fé nam tæpum 129 millj. kr.

Verði frumvarp þetta að lögum er eignum kirkjubyggingasjóðs ætlað að renna til ábyrgðardeildar Jöfnunarsjóðs sókna, sem stofnuð var á grundvelli laga um sóknargjöld, nr. 91/1987, með reglugerð um ábyrgðir Jöfnunarsjóðs sókna, nr. 865/2001, sbr. og 5. gr. reglugerðar nr. 206/1991, um Jöfnunarsjóð sókna.

Ábyrgðardeildin veitir ábyrgðir á lánum til sókna samkvæmt fyrrgreindri reglugerð, nr. 865/2001, og tók hún gildi um áramótin. Með sameiningunni er stefnt að því að einfalda stjórnsýslu og bæta þjónustu með því að hafa á einum stað lánveitingar og ábyrgðir á lánum vegna kirkjubygginga og endurbóta á kirkjum. Með því að hafa styrkveitingar og ábyrgðir Jöfnunarsjóðs og kirkjubyggingasjóðs undir einni stjórn fæst nauðsynlegt yfirlit yfir lánveitingar auk þess sem umsýsla og kostnaður verður minni.

Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allshn. og 2. umr.