Átraskanir

Þriðjudaginn 05. febrúar 2002, kl. 17:54:44 (4075)

2002-02-05 17:54:44# 127. lþ. 69.16 fundur 337. mál: #A átraskanir# þál., Flm. KF
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 127. lþ.

[17:54]

Flm. (Katrín Fjeldsted):

Herra forseti. Nú þegar komið er að lokum þessarar umræðu vil ég þakka þeim þingmönnum kærlega sem tekið hafa þátt í henni og þau jákvæðu viðbrögð sem þeir hafa sýnt hér.

Auðvitað getur maður sagt að víða leynist mannanna mein en lystarstol og lotugræðgi, sem hér hafa verið gerð sérstaklega að umtalsefni, eru gjarnan dulin vandamál í þjóðfélaginu. Það hefur verið rakið í allítarlegu máli hversu alvarleg þau geta verið, hversu erfið meðferðin er og dánartíðni há.

Það er mikilvægt að heilbrigðisþjónustan sé þannig skipulögð að hægt sé að skapa farveg til að vísa þeim sjúklingum í sem alvarlegast er komið fyrir og að sá farvegur sé skýr. Læknar sem hafa með fólk að gera á vægari stigum verða að hafa fagmenn til að vísa þeim sjúklingum til sem alvarlegast eru haldnir, til meðferðar á dagdeild, göngudeild eða til innlagnar.

Ég vitnaði til þess í fyrri ræðu minni um málið að átröskunarteymi hefði verið starfandi á geðdeild Landspítalans við Hringbraut í eitt ár. Þetta teymi metur það svo að endurskipuleggja þurfi starfið fyrir næsta starfsár. Hópurinn leggur til að dagdeild verði stofnuð með fimm plássum til viðbótar göngudeildarstarfsemi og legudeild, og að fjármagn verði veitt í reksturinn með auknum stöðuheimildum. Það er talið upp að tveir sjúkraliðar þyrftu að vera í fullu starfi, ein og hálf staða hjúkrunarfræðinga, sjúkraþjálfari í 25% starfi, geðlæknir, sálfræðingur, næringarráðgjafi og félagsráðgjafi, allir í hálfu starfi. Þetta gera samtals 5,75 stöðugildi. Iðjuþjálfa mætti samnýta með öðrum sjúklingum. Hópurinn segir að flestir aðilar komi að öllum þáttum meðferðarinnar til að tryggja samfellu, þ.e. innlögn, dagdeild og göngudeild.

Ég hef ekki látið reikna út kostnaðinn við þetta og treysti mér heldur ekki til að vega og meta hvort þessar tölur eða þessi stöðuheimildafjöldi er rétt út reiknaður en efast ekki um að hópurinn sem starfað hefur saman að þessu máli í eitt ár hafi undirbyggt það allvel.

Ég tel að full þörf sé á að styðja við þetta meðferðarteymi sem fór af stað af eigin hvötum vegna þess að fólkið taldi að þarna væri þörf á að láta fólk vinna saman. Þessi hópur hefur ekki auglýst starfsemi sína en við vitum, ef við berum saman við þarfir í öðrum löndum, fjölda sjúklinga og hvernig þar er tekið á málum, að það er mjög raunhæf lausn sem þarna er boðið upp á. Ég vænti þess að hv. heilbr.- og trn. Alþingis ræði málið ofan í kjölinn og reikni jafnvel út hvað þetta muni kosta svo að menn geti tekið raunhæfar ákvarðanir.

Vandinn er dulinn og meðferðin getur bjargað mjög mörgum. Ég held að það væri mjög ánægjulegt að geta afgreitt þetta í vor frá nefndinni og þinginu.