Þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls

Þriðjudaginn 05. febrúar 2002, kl. 18:19:38 (4080)

2002-02-05 18:19:38# 127. lþ. 69.17 fundur 389. mál: #A þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls# þál., ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 127. lþ.

[18:19]

Arnbjörg Sveinsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg ljóst að sú sýn er endalaus að það eigi að bíða og skoða og skoða og bíða og ekkert megi framkvæma. Það er auðvitað hægt að hafa lið sérfræðinga í því fram eftir öldinni að skoða og rannsaka og bíða og framkvæma ekki nokkurn skapaðan hlut.

En hv. þm. nefndi það einnig í ræðu sinni að Vinstri grænir hefðu aðra sýn á byggðamál og að það væri ekki nútímabyggðastefna að virkja stórvirkjanir og byggja álver. Ég vil því inna þingmanninn eftir því hvaða sýn það er, hvað á að gera ef ekki má fara í þessar framkvæmdir. Við höfum að vísu að mínu mati mjög góð dæmi um að vel hefur tekist til um uppbyggingu atvinnulífs við Hvalfjörð og það hefur sýnt sig að það hefur haft gífurlega mikil áhrif þar á byggðamál. t.d. á Akranesi og í Borgarfjarðarsýslu. En gaman væri að heyra hver hin sýnin er, sýn Vinstri grænna á hvað má yfir höfuð framkvæma, hvað má yfir höfuð gera á landsbyggðinni, því allt virðist vera neikvætt að þeirra mati.