Þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls

Þriðjudaginn 05. febrúar 2002, kl. 18:25:53 (4083)

2002-02-05 18:25:53# 127. lþ. 69.17 fundur 389. mál: #A þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls# þál., ÞBack (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 127. lþ.

[18:25]

Þuríður Backman (andsvar):

Herra forseti. Ég vil að við hættum við Kárahnjúkavirkjun á þeirri á sömu forsendu og Skipulagsstofnun úrskurðaði hana úr leik. Ekki á þeirri forsendu að verið sé að spila upp einhverja togstreitu á milli landsbyggðarinnar og höfuðborgarsvæðisins.

Auðvitað eigum við ekki að tefla saman landsfjórðungunum þegar kemur að virkjunum og nýtingu orkunnar. Við eigum að meta virkjunarkostina eftir þeim möguleikum sem felast í vatnsafli og í jarðvarmanum. Þess vegna hef ég bundið vonir við að rammaáætlunin fái að líta dagsins ljós svo hægt verði að meta þetta út frá náttúruauðlindinni sem slíkri og mögulegum virkjunarkostum, en ekki vera að tefla saman landsfjórðungum, höfuðborgarsvæði og landsbyggð. Það er engum til góðs.

Hv. þm. spurði mig um hvort það yrði ekki áfall fyrir íbúa Austurlands ef fallið yrði frá þessari stóriðju. Vissulega yrði það áfall fyrir marga.

Ábyrgð stjórnvalda er því mikil að hafa ekkert annað en stóriðju í farteskinu núna um langan tíma, gefa engar vonir, gefa engan stuðning nema vísa eingöngu á stóriðjuna. Hvað svo ef hún verður ekki? Það er ekki okkur að kenna. Það hefur alltaf verið ljóst að við viljum fara varlega hvað náttúruauðlindirnar snertir. En það eru stjórnvöld sjálf sem bregðast, það eru ekki við. Og hvað ætlar hv. þm. þá að gera?