Þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls

Þriðjudaginn 05. febrúar 2002, kl. 18:46:45 (4090)

2002-02-05 18:46:45# 127. lþ. 69.17 fundur 389. mál: #A þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls# þál., ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 127. lþ.

[18:46]

Arnbjörg Sveinsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Því er fljótsvarað. Ég hef ekki lesið grein Sigurðar Jóhannessonar í Vísbendingu. Ég hef lesið margar aðrar greinar og fyrri greinar hans um þetta mál og ég segi, eins og ég hef áður sagt úr ræðustól við hv. þm., að eftir að hafa lagt mat á þessa hagfræðinga og skrif þeirra, þá trúi betur þeim hagfræðingum sem leggja til og telja þessar framkvæmdir vera þjóðarbúinu til hagsbóta og að skynsamlegt sé að fara í þessar framkvæmdir. (ÖJ: Og þá þarf ekki að lesa hinar?) Ég les þær líka og ég legg þær á vogarskálarnar. Það hljótum við öll að gera, hv. þm. Það er mín sýn, af því að hv. þingmenn Vinstri grænna nefna gjarnan aðrar leiðir og þeir hafi aðra sýn. (ÖJ: Og aðrar tillögur.) Það væri nefnilega gaman að sjá þær tillögur. (Gripið fram í.) Þær tillögur væri gaman að sjá, hv. þm., en það er mín sýn að við eigum að nýta hreinar og endurnýjanlegar orkulindir landsins og ég tel í rauninni að það sé skylda okkar Íslendinga að nýta þær orkulindir og það sé jákvætt framlag til umhverfismála heimsins. Það er mín sýn á umhverfisþátt málsins. Og mín sýn á efnahagsmál landsins er sú að við eigum að nýta orkulindirnar. Sem betur fer fara þeir tveir jákvæðu þættir saman og það er mjög gott. Þess vegna eigum við að nýta þá.