Þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls

Þriðjudaginn 05. febrúar 2002, kl. 18:56:42 (4092)

2002-02-05 18:56:42# 127. lþ. 69.17 fundur 389. mál: #A þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls# þál., Flm. KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 127. lþ.

[18:56]

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vona að manni sé óhætt að fara í andsvar í tilefni af ræðu hv. 1. þm. Norðurl. e. og hann láti ekki skapið þannig hlaupa með sig í gönur að hér verði flúin öll málefnaleg umræða en afstaða hv. þm., herra forseti, er að mörgu leyti afar ámælisverð.

Hann skammar þingmenn fyrir að taka ekki ábyrga afstöðu og ætlar okkur þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs það að leggja stein í götu Austfirðinga til áframhaldandi mannsæmandi lífs. Það er rangt, herra forseti. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur flutt hverja þáltill. á fætur annarri sem varða atvinnumál þjóðarinnar og meira að segja eina sem varðar sérstaklega atvinnumál á Austfjörðum. Í þáltill. Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hafa verið talin upp ótal tækifæri til atvinnusköpunar sem eru gjaldeyrisskapandi, sem efla mannlíf, sem efla menningu, sem efla þá atvinnuvegi sem við höfum fyrir í fjórðungnum, sem efla hugmyndaflug, sem efla kjark og hv. 1. þm. Norðurl. e. er að fara með fleipur og rangt mál og rangar ásakanir þegar hann heldur því fram að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð beri ekki hag Austfirðinga fyrir brjósti í þessum efnum.

Í öðru lagi má segja að hv. þm. setji stóriðjuna númer eitt í forgrunn í málflutningi sínum sem er líka ámælisvert. Hann ætti að setja náttúru landsins og auðlindina sem um er teflt í forgrunn. Það gera hv. þm. Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs með því að þeir vilja að rammaáætlun ríkisstjórnarinnar hafi þar ákveðinn forgang og það sé skoðað í hvað við ætlum að nýta þessa náttúruauðlind okkar en ekki fara að flengja sér í það að búa til milljónir tonna af áli fyrir þá orku sem við eigum í fallvötnunum okkar.