Þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls

Þriðjudaginn 05. febrúar 2002, kl. 18:58:53 (4093)

2002-02-05 18:58:53# 127. lþ. 69.17 fundur 389. mál: #A þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls# þál., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 127. lþ.

[18:58]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir vænt um það að hv. þm. skuli hafa vakið athygli á því að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hafi flutt tillögur um að efla atvinnulíf og mannlíf á Austurlandi með þeim hætti að hægt sé að nefna það í sömu andránni og við erum að tala um Kárahnjúka og álverið við Reyðarfjörð. Það var ágætt af því að þetta hefur farið fram hjá mér og sennilega þjóðinni líka að hv. þm. notaði tækifærið og minnti pínulítið á það hvaða leiðir þetta séu. Hvað er það sem Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur nefnt sem eigi að koma í staðinn fyrir álver við Reyðarfjörð?

Ég tók svo eftir að tveir aðrir þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hafa kvatt sér hljóðs til þess að veita andsvör við ræðu minni. Þeir hafa þá líka tækifæri til þess ef svo undarlega fer að hv. 17. þm. Reykv. sjái ekki ástæðu til þess að nefna úrræðin, þá hafa þeir líka tækifæri til að minnast á þau. Hvað er það sem þeir hafa talað um sem er sambærilegt við álverið og stórvirkjunina? Af hverju er svona hljótt um þessar tillögur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs? Getur verið að menn hafi yfirleitt ekki trú á því að þetta séu í rauninni neinar tillögur? Getur verið að fólki finnist þær svo léttvægar að því taki ekki að tala um þær? Getur verið að enginn hafi trú á því að hugur fylgi máli? Er þetta bara eitthvað sem sagt er út í bláinn og engin alvara fylgir?