Þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls

Þriðjudaginn 05. febrúar 2002, kl. 19:00:38 (4094)

2002-02-05 19:00:38# 127. lþ. 69.17 fundur 389. mál: #A þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls# þál., Flm. KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 127. lþ.

[19:00]

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst tónninn í hv. þm. Halldóri Blöndal fremur niðurlægjandi. Auðvitað hefur fólk trú á þeim tillögum sem Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur lagt fram en það verður að segjast eins og er, herra forseti, að stjórn þingsins virðist ekki hafa þá tiltrú á tillögunum að þær fái nokkurn tímann að koma út úr nefndum. Gæti það kannski verið að hv. þm. sé eitthvað að beita áhrifum sínum innan flokks síns, sem er vissulega í meiri hluta hér á Alþingi, til að búa svo um hnútana að þessar tillögur þingmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs nái aldrei inn á Alþingi og ekki verði hægt að greiða atkvæði um þær? En þar kennir ýmissa grasa, öflug atvinnuuppbygging er í forgrunni og sömuleiðis virðing fyrir landinu og náttúrunni. Náttúruvernd er líka atvinnuskapandi. Við höfum beðið ríkisstjórnina um að láta meta umhverfisáhrif þjóðgarðsins og möguleg efnahagsleg áhrif af þjóðgarði á svæðinu. Ekki lítur neitt slíkt dagsins ljós. Kannski er það vegna þess að ríkisstjórnin og þingmenn stjórnarliðsins eru einlægt með banana í eyrunum og hlýða aldrei á þær tillögur sem þeir vilja ekki heyra.