Þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls

Þriðjudaginn 05. febrúar 2002, kl. 19:12:57 (4103)

2002-02-05 19:12:57# 127. lþ. 69.17 fundur 389. mál: #A þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls# þál., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 127. lþ.

[19:12]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þm. að ég er ekki samtímamaður Sigríðar í Brattholti. (SJS: Það mætti halda það.) En út af því sem hann sagði að öðru leyti er það ekki rétt að við getum ekki horft til neins annars en álvers og stóriðju. Við leggjum mikla áherslu á að hægt verði að fara í þessar framkvæmdir á Austurlandi vegna þess að þær munu auka og bæta mannlíf þar og skapa miklar gjaldeyristekjur og festu í fjórðungnum.

Við höfum líka verið miklir áhugamenn um það, sjálfstæðismenn, að hægt sé að fara í fiskeldi í stórum stíl í fjörðunum fyrir austan, bæði Mjóafirði, Berufirði og Reyðarfirði, þannig að það er síður en svo að við horfum bara til stóriðjunnar. Við teljum á hinn bóginn að þetta sé mesta og besta tækifæri sem við höfum nú til að efla landsbyggðina en það er það sem við viljum öll í orði kveðnu gera, og ég vil sýna líka í verki.