Þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls

Þriðjudaginn 05. febrúar 2002, kl. 19:14:10 (4104)

2002-02-05 19:14:10# 127. lþ. 69.17 fundur 389. mál: #A þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls# þál., Flm. KolH
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 127. lþ.

[19:14]

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir):

Herra forseti. Það er að líða að lokum þessarar umræðu sem farið hefur fram í tvennu lagi um tillögu þingmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs um þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls. Þó að hv. 1. þm. Norðurl. e. hafi gert ritstjórnartillögu áðan um það um hvað ræða mín ætti að fjalla hafði ég þegar undirbúið ræðu mína, og ætla að hefja hana á þann veg sem ég hafði áformað en ekki að verða við ritstjórnartillögu eða ósk hv. þm.

Herra forseti. Umræðan í þessari lotu um mögulegar framkvæmdir á svæðinu norðan Vatnajökuls hefur kannski ekki snúist svo ýkja mikið um tillöguna sjálfa. Þó kom ýmislegt fram í fyrri hluta umræðunnar sem ég get ekki látið hjá líða að svara í þessari ræðu minni núna en í fyrri ræðu minni sem ég flutti fyrir örfáum dögum gagnrýndi ég úrskurð hæstv. umhvrh. og færði rök fyrir því að hæstv. ráðherra hefði teflt á afar tæpt vað þegar hún sneri við úrskurði Skipulagsstofnunar og féllst á áformin um Kárahnjúkavirkjun þrátt fyrir gífurleg, óafturkræf og ófyrirséð umhverfisáhrif. Yfir öll þau áhrif fór ég í fyrri ræðu minni og ætla ekki að endurtaka þau hér.

[19:15]

Síðan ræddi ég nokkuð ítarlega um möguleg áhrif þess að hæstv. umhvrh. ákvað að fjalla ekkert um hinn efnahagslega þátt, þ.e. réttlætingu Landsvirkjunar á náttúruspjöllunum. Hæstv. umhvrh. ákvað að fjalla ekki um þann þátt í mati á umhverfisáhrifum. Hún féllst á umhverfisáhrifin burt séð frá réttlætingu Landsvirkjunar. Þessa þætti hef ég gagnrýnt. Ég spurði, eftir því sem mér fannst, áleitinna spurninga í fyrri ræðu minni sem ég bjóst við að hv. þingmenn stjórnarflokkanna gerðu einhverjar tilraunir til að svara í umræðunum. En því miður, herra forseti, hefur fátt verið um svör.

Spurningar sem enn þá er ósvarað lúta t.d. að verðgildi þess lands sem um ræðir. Finnst hv. stjórnarþingmönnum sæmandi að farið sé út í framkvæmdir á borð við þær sem eru á teikniborðinu án þess að það sé svo mikið sem rætt að reiknað verði einhvers konar verðgildi lands inn í þá útreikninga sem að baki liggja? Þessari spurningu hef ég varpað fram en ekki fengið svo mikið sem tilraun til svars.

Hvað segja þá hv. þm. stjórnarliða um það sem virðist liggja í orðum hæstv. umhvrh. að það eigi að fara fram í sölum Alþingis einhvers konar mat á hinum efnahagslega þætti úr því að á því er ekki tekið í umhverfismatinu? Eða hvað þýða orð hæstv. umhvrh. á bls. 121 í úrskurðinum? Ég vil fá að vitna í þann úrskurð, með leyfi hæstv. forseta. Í þeim úrskurði segir ,,að ekki skuli líta til þjóðhagslegra áhrifa framkvæmdar þegar tekin er afstaða til þess hvort fallist sé á hana eða lagst gegn henni. Þetta atriði mælir á móti því að lagst sé gegn framkvæmd nema mjög miklir hagsmunir séu í húfi að því er umhverfið varðar. Að öðrum kosti væri verið að skerða óeðlilega svigrúm leyfisveitanda, í þessu tilviki Alþingis skv. 10. gr. orkulaga, til þess að vega og meta kosti og galla þess að leyfa framkvæmdina, að teknu tilliti til úrskurðar um mat á umhverfisáhrifum.``

Hvað þýðir þessi setning? Ég spurði hæstv. umhvrh. að því í minni fyrri ræðu en hún gerði engar tilraunir til að svara.

Í þessari seinni lotu hafa verið orðaðir hlutir sem lúta að hinum efnahagslega þætti. Nefndir hafa verið til sögunnar nokkrir hagfræðingar sem hafa tjáð sig um þessi mál. Hjá þeim hafa komið fram mjög veigamiklar röksemdir í greinum og erindum sem segja okkur að teflt sé á tæpasta vað hvað varðar arðsemi þessara framkvæmda. Ætla menn ekkert að skoða þessa þætti? Ætla hv. þm. að sætta sig við að hér skuli hvorki gerð kostnaðarábatagreining né að fram fari skilyrt verðmætamat á því landi sem um ræðir?

Ég bendi hv. þm. á að kynna sér grein í nýjasta tímariti Glettings, tímariti um austfirsk málefni, þar sem fjallað er um mat á verndargildi náttúrunnar við Kárahnjúka. Það vill svo til, herra forseti, að það hefur farið fram könnun á því hvert verðmætið yrði mögulega á þessu landsvæði. Er þeirri könnun lýst í grein eftir Nele Lienhoop sem er nemi í umhverfisfræði í Aberdeen í Skotlandi. Hún hefur látið fara fram könnun á því hver greiðsluvilji fólks sé varðandi Kárahnjúkasvæðið. Það kom í ljós að með því að gera þetta skilyrta verðmætamat, sem er aðferð hagfræðinnar við að meta verðgildi landsins, að meðalgreiðsluvilji íslenskra heimila til að halda ósnertri náttúrunni sem mundi hverfa undir Hálslón er talsvert mikill, með öðrum orðum eins og segir í greininni, með leyfi forseta, 3.900 kr. á mann. Með því að margfalda þessa tölu með fjölda heimila á Íslandi fást 385 millj. kr. sem þá er áætlað heildarverðmæti náttúrunnar á lónstæðinu. Þessi upphæð endurspeglar verðmæti náttúrunnar, með öðrum orðum þann hag sem fólk telur sig hafa af því að þjóðgarður yrði stofnaður á svæðinu. Jafnframt endurspeglar hún þann fórnarkostnað sem myndun Hálslóns mundi hafa í för með sér og er mikilvægt að taka þessa tölu með sem kostnað þegar skorið er úr um hvort bygging Kárahnjúkavirkjunar sé hagkvæm eða ekki.

Ætla hv. þingmenn stjórnarflokkanna að láta þessi mál renna hér í gegn án þess að þessir þættir séu skoðaðir? Hæstv. umhvrh. hefur hafnað því að þessir þættir séu skoðaðir í mati á umhverfisáhrifum. En hvar á að skoða þá? Þetta skilyrta verðmætamat sem hefur farið fram, sem ég nú hef vitnað til, herra forseti, varðar bara Hálslón en það er ekki eina lónið í framkvæmdunum. Þau eru fleiri. Enn hefur ekki farið fram skilyrt verðmætamat varðandi svæðið allt.

Hvað segja hv. þingmenn um orð upplýsingafulltrúa Landsvirkjunar þegar hann er spurður út í hvort þær komi ekki illa við framkvæmdaraðilann, fréttir sem nú berast af bráðnun Vatnajökuls, sem er afar hröð og mun skjótari en vísindamenn höfðu gert sér grein fyrir, enda hækkað hitastig á jörðinni orðin staðreynd? Þegar upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar, Þorsteinn Hilmarsson, var spurður að því í Fréttablaðinu þann 21. janúar sl. hvort þetta gæti ekki sett strik í reikning vatnsbúskapar eða arðsemi þessarar virkjunar sem Landsvirkjun hyggst reisa á Kárahnjúkasvæðinu svaraði hann því til að það kæmi ekki svo illa við hann. Hann benti á að þegar lagt er í virkjunarframkvæmdir væri horft til þess að virkjanir borgi sig upp á 40 árum og þá þurfi þeir ekki að hafa áhyggjur af því sem gerist eftir 100 ár. Hvað segir fólk við svona svari? Eigum við ekki að spyrja spurninga eins og þessarar? Hvernig væri þá að reikna kostnaðinn við það að koma landinu í samt horf eftir þessi 40 ár þegar lónið stendur orðið hálffullt, aureyjarnar farnar að skaga upp úr þessu lóni? Eigum við ekki að reikna kostnaðinn við að koma landinu í samt horf aftur inn í stofnkostnað virkjunarinnar og kannski líka kostnaðinn við að rífa öll mannvirkin niður fyrst þetta þarf ekki að lifa nema til 40 ára og allt eftir það skiptir engu?

Herra forseti. Ég bendi á að íslensk stjórnvöld eru samkvæmt alþjóðasáttmálum skuldbundin til að líta til langs tíma og gera langtímaáætlanir, m.a. um nýtingu náttúruauðlinda. Eitt af því sem stjórnvöld hafa verið að reyna að gera til þess að standa undir þeim kröfum sem alþjóðasamningar hafa lagt á herðar þeim er að láta fara fram mat á virkjunarkostum, svokallaða rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hafa hvað eftir annað gengið fram og mælt með því að rammaáætlunin verði gerð, henni verði lokið. Við höfum fagnað því að hún skuli þó vera á borðum ráðamanna. Við höfum fagnað þeim vinnubrögðum sem virðast viðhöfð með skipun fjölmennra vinnuhópa til að vinna rammaáætlunina. Við höfum hins vegar látið í ljósi áhyggjur af því að stjórnvöld virðast síðan ekkert ætla að gera með þá miklu vinnu sem vinnuhóparnir í rammaáætluninni inna af hendi.

Það er alveg rétt sem hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir minntist á í ræðu sinni áðan, að við vitum ekkert um það hér hvaða pólitísk ákvörðun verður tekin hjá stjórnvöldum varðandi rammaáætlunina, hvaða gildi hún kemur til með að hafa. Ég hef spurt hæstv. iðnrh. að því úr ræðustól hvaða hugmyndir séu um það í ríkisstjórninni og hefur verið fátt um svör. Auðvitað er ástæða til að hafa áhyggjur af því en við treystum því, herra forseti, að ríkisstjórnin sjái, þegar vinnunni er lokið, að við höfum það öflugt plagg í höndum að við getum stýrt virkjunaráformum okkar og nýtingu þess orkuforða sem býr í þessum auðlindum á skynsamlegan hátt. Þess vegna m.a. er glapræði að hlaupa út í það að hefja framkvæmdir við virkjun á borð við Kárahnjúkavirkjun sem meira að segja öflugir hagfræðingar halda fram að komi aldrei til með að geta staðið undir sér eða skilað arði.

Ég vil koma inn á það, herra forseti, að fram undan eru afskaplega miklar breytingar á orkumarkaði á Íslandi. Hvaða hluti orkumarkaðar á Íslandi vex nú hraðast? Jú, orkusala til stóriðju. Hvaða skynsemi er í því, herra forseti, að 88% af raforkuframleiðslu Landsvirkjunar verði eftir Kárahnjúkavirkjun seld til stóriðjufyrirtækja? Að mínu mati er ekkert vit í því, herra forseti. Það hefði verið gaman að fá hér einhver skoðanaskipti um svona mál og þau eiga sennilega eftir að fara fram þegar frv. til raforkulaga verður lagt fyrir síðar á þessu þingi.

Hvernig ætlar ríkisstjórnin að réttlæta áfram þá leynd sem hvílir yfir orkusölusamningum Landsvirkjunar? Það er deginum ljósara, reiknað út frá upplýsingum sem Landsvirkjun sjálf hefur gefið, að orkuverð frá áformaðri Kárahnjúkavirkjun þarf að vera langt yfir 3 kr. á kílóvattstundina til að virkjunin geti staðið undir þeim kröfum sem Landsvirkjun gerir til arðsemi hennar. Hvernig verður hægt að fá það verð á meðan önnur sala Landsvirkjunar til stóriðju gefur 1,20 kr. á kílóvattstund eða kannski 1,50 kr. þegar allra hæsta verð er nefnt?

Á ekki að skýra það fyrir þjóðinni hvers vegna stofnkostnaður við áform Kárahnjúkavirkjunar hefur lækkað um heila 30 milljarða frá því að áformin voru fyrst kynnt og þangað til síðustu tölur Landsvirkjunar voru lagðar á borðið í vinnunni við kæruferlið í umhvrn? Hvaða skýringar eru gefnar á því að upphaflegar áætlanir um stofnkostnað virkjunarinnar voru 90 milljarðar áður en krónan tók að falla gagnvart dollar, meðan bandaríkjadollar var um 85 kr., og síðan þegar dollarinn fór yfir 100 kr. hækkuðu tölurnar eðlilega upp í 110 milljarða og enginn neitaði því en núna þegar málið er komið í gegnum hendurnar á umhvrh. virðist stofnkostnaður við virkjunina hafa lækkað um 30 milljarða eða í 80 milljarða kr.? Hvað er hér á seyði? Hvers vegna fáum við engin svör? Ber ekki ríkisstjórnin ábyrgð á sameiginlegum fjármunum okkar í þessum efnum og þarf hún ekki að standa eigendunum, þjóðinni, einhver reikningsskil? Meðal annarra orða, á ekkert að upplýsa eiganda Landsvirkjunar, þjóðina, um það hvers vegna arðsemiskrafa eigin fjár fyrirtækisins er alla jafna 6% en í tilfelli Kárahnjúkavirkjunar er áætlað að 14% arður fáist af eigin fé í virkjuninni? Hverju sætir?

Herra forseti. Í lok máls míns get ég ekki látið hjá líða að fara örfáum orðum um afstöðu Samfylkingarinnar í umræðunni. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson og Jóhanna Sigurðardóttir áttu í einhverjum erfiðleikum með að réttlæta hvers vegna þau töldu sig ekki geta stutt þá tillögu sem hér er til umfjöllunar eða séð hana í réttu ljósi.

Eftir því sem skilja mátti á ræðum þeirra er skýringin sú að þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, þá sérstaklega sú sem hér talar, hafa ekki lýst yfir stuðningi við frv. til stjórnarskipunarlaga um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins, flutt af hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur á nokkrum undangengnum þingum. Ég verð að játa það, herra forseti, að mér líkar ekki sú aðferð þingmannanna að ætla að stilla málum upp með þessum hætti en úr því að þau kjósa að gera svo þá má auðvitað koma hér fram að hvorki hv. þm. Össur Skarphéðinsson né hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hafa nokkuð verið að ómaka sig í ræðustól þegar hv. þm. Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hafa lagt fram mál um stofnun Snæfellsþjóðgarðs, um tilnefningu Eyjabakkasvæðisins inn á skrá Ramsar-samningsins, um tillögu okkar um breytingu á vatnalögum eða stækkun friðlandsins í Þjórsárverum, en mér dettur hins vegar ekki í hug að erfa það við þau núna eða núa því þeim um nasir eða draga þá ályktun að þar með séu þau á móti umræddum tillögum. Ég læt mér nægja að lýsa yfir vonbrigðum mínum með að það skyldi ekki fá meiri hljómgrunn í hópi þingmanna Samfylkingarinnar að hér skuli vera á borðinu tillaga um að þjóðinni gefist kostur á að greiða atkvæði um Kárahnjúkavirkjun.