Þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls

Þriðjudaginn 05. febrúar 2002, kl. 19:36:52 (4112)

2002-02-05 19:36:52# 127. lþ. 69.17 fundur 389. mál: #A þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls# þál., Flm. KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 127. lþ.

[19:36]

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Tali nú hver fyrir sig. En ég spyr hv. þm.: Er Vinstri hreyfingin -- grænt framboð í ríkisstjórn? Hver er ábyrgð hæstv. ríkisstjórnar og ríkisstjórnarflokkanna á því að það er engin hugmynd sem verið er að vinna að varðandi atvinnuuppbyggingu í fjórðungnum nema þessi stóriðjuhugmynd sem hæstv. ríkisstjórn veit ekkert hvort getur orðið af. Hér er um stærstu ríkisframkvæmd sem farið hefur á teikniborðið að ræða. Ekki eru menn að segja að þessi virkjun eigi að vera reist sem einhvers konar einkaframtak. Nei, við eigum að borga þessa virkjun með rafmagnsreikningunum okkar.

Hæstv. ríkisstjórn sér ekkert annað heldur en þessa virkjun og þetta álver og hefur engar aðrar hugmyndir varðandi atvinnuuppbyggingu í fjórðungnum og það er annað en Vinstri hreyfingin -- grænt framboð getur sagt. Hún hefur lagt fram ítarlegar og öflugar tillögur með miklum hugmyndum sem allar geta staðið (ArnbS: Hverjar eru þær?) og ætti ríkisstjórnin að taka sér Vinstri hreyfinguna -- grænt framboð til fyrirmyndar hvað það varðar.