Þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls

Þriðjudaginn 05. febrúar 2002, kl. 19:41:34 (4116)

2002-02-05 19:41:34# 127. lþ. 69.17 fundur 389. mál: #A þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls# þál., Flm. KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 127. lþ.

[19:41]

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Sumu er ekki hægt að svara. Það er ekki stefna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs að leggja landsbyggðina í auðn. Það er ósanngjarnt af hv. þm. að beita málflutningi af þessu tagi úr ræðustól. Það er hins vegar stefna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs að vinna þannig að málum að langtímaáætlanir séu gerðar um svo stórar ákvarðanir sem þá sem hér liggur fyrir. Þá erum við að tala um rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma með flokkun virkjunarkosta, endanlega rammaáætlun, stefnumótun um framtíðarskipan orkumála og áætlun um orkunýtingu til lengri tíma. Samkvæmt skilmálum Ríó-yfirlýsingarinnar eru stjórnvöld bundin af því að gera slíkar áætlanir áður en þau taka svona stórar ákvarðanir.

Það skiptir máli að þjóðin fái að heyra ólík sjónarmið í þessu máli og það skiptir máli að þjóðin finni það að hún megi tjá sig um þessi mál og hv. þm. séu ekki með yfirlýsingar af því tagi sem hér hefur gerst og eru þeim ekki sæmandi, herra forseti.