2002-02-06 13:58:55# 127. lþ. 71.92 fundur 313#B bréf Verslunarráðs til viðskiptaráðherra um rannsókn Samkeppnisstofnunar á ólöglegu verðsamráði olíufélaganna# (aths. um störf þingsins), LB
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 127. lþ.

[13:58]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Einhver undarlegasta uppákoma til margra ára átti sér stað í gær þegar Verslunarráðið hélt blaðamannafund og kynnti þá skoðun sína að leggja ætti niður þá rannsókn sem í gangi er gagnvart olíufélögunum í landinu, lagði bréflega til við viðskrh. að viðskrh. beitti sér fyrir að framkvæmd yrði skoðun á þessum aðgerðum, þ.e. leit í húsnæði olíufélaganna og hins vegar að málið yrði látið niður falla og það tekið upp á nýjum löglegum forsendum ef ástæða þætti til.

Virðulegur forseti. Um langt skeið hefur sá orðrómur verið á kreiki og margt bent til að um samráð hafi verið að ræða í þessum geira. Samkeppnisstofnun fór fram á það við dómstóla að fá heimild til að leita hjá olíufélögunum og það var samþykkt. Farið var nákvæmlega eftir þeim leikreglum sem settar eru í samfélaginu. Leitin fór fram undir eftirliti og yfirstjórn lögreglu nákvæmlega eins og á að gera þegar um leit er að ræða og kveðið er á um í lögum um meðferð opinberra mála. Hér er því á ferðinni að mínu viti einhver grímulausasta hagsmunagæsla sem um getur um langt skeið og það er með ólíkindum að þessi ,,litlu fyrirtæki``, olíufélögin, skuli nú ekki treysta sér til að standa á eigin fótum heldur senda sérstakt hagsmunagæslufélag, Verslunarráðið, til þess að setja fram kröfu af þessum toga.

Ég vil því beina því til hæstv. viðskrh. hvort hún ætli virkilega að verða við þessu erindi því það er alveg ljóst að menn hafa öll tök á því ef menn vilja gera við þetta athugasemdir að leita til dómstóla, gera þá kröfu um að haldlagning gagna og annað slíkt sé ógilt o.s.frv. Hví eru gerðar kröfur um það að hæstv. viðskrh. sé knúin til að framkvæma ólögmætar aðgerðir, að taka fram fyrir hendurnar á dómstólum, að taka fram fyrir hendurnar á lögreglu og ljúka máli sem er í eðlilegri meðferð hjá réttum yfirvöldum?