2002-02-06 14:04:51# 127. lþ. 71.92 fundur 313#B bréf Verslunarráðs til viðskiptaráðherra um rannsókn Samkeppnisstofnunar á ólöglegu verðsamráði olíufélaganna# (aths. um störf þingsins), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 127. lþ.

[14:04]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Mér dettur ekki í hug eitt andartak að hæstv. viðskrh. meira en íhugi að verða við hinum fráleitu tilmælum Verslunarráðs í þessum efnum. Upp er kveðinn úrskurður af hálfu dómstóla. Samkeppnisstofnun fer að lögum, framkvæmir þá húsleit sem um ræðir. Hver er vandi málsins? Málið er í eðlilegri meðferð og auðvitað bíða menn niðurstöðu í því. Maður veltir fyrir sér hvað sé að óttast. Hvað er verið að fela? Hvað kemur Verslunarráðinu til að óska þess að öllum gögnum verði skilað tafarlaust? Hvað kemur til að Verslunarráðið krefst þess af framkvæmdarvaldinu að það grípi inn í lögformlega meðferð mála? Þetta er ótrúlegt í alla staði, herra forseti. Það er óhjákvæmilegt að segja það, þó mér sé hlýtt til hv. þm. Vilhjálms Egilssonar, að framkvæmdastjóri Verslunarráðsins er sami maðurinn og ég nefndi hér fyrr, formaður efh.- og viðskn. sem hefur málefni samkeppnismála um að fjalla. Þessi sama nefnd gekk frá þeim lögum sem nú er verið að starfa eftir og hv. þm. Vilhjámur Egilsson mælti fyrir því við umræðu mála þannig að maður hlýtur að líta á þetta mál undir þessum formerkjum. Það er óhjákvæmilegt. Maður spyr sig hvort hv. þm. hafi verið að tala í umboði flokksbræðra sinna og systra hér á hinu háa Alþingi, hvort hér sé Sjálfstfl. aftur mættur til leiks eins og venja er til talandi um frelsi en meinandi helsi þegar kemur að hagsmunum hinna stóru í atvinnulífinu. Þeir eru svo sannarlega hinir stóru, olíufélögin í landinu. Það má með öðrum orðum ekki hrófla við þeim þegar til kastanna kemur hvað sem hagsmunum neytenda líður að öðru leyti.