2002-02-06 14:07:06# 127. lþ. 71.92 fundur 313#B bréf Verslunarráðs til viðskiptaráðherra um rannsókn Samkeppnisstofnunar á ólöglegu verðsamráði olíufélaganna# (aths. um störf þingsins), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 127. lþ.

[14:07]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Mér finnst hálfaumkunarvert að hlusta á það og lesa að Verslunarráðið skuli vera að klaga til viðskrh. vinnuaðferðir Samkeppnisstofnunar sem í einu og öllu fer að lögum eins og hér hefur komið fram. Það er orðin regla fremur en undantekning að sjálfstæðismenn séu með ónot út í Samkeppnisstofnun.

Það er alveg ljóst að ákvæði samkeppnislaga hér eru ekkert strangari en gerist og gengur í öðrum löndum þar sem heimilt er t.d. að leggja hald á gögn eins og hér hefur verið gert. Það hefur verið gert í ríkum mæli þegar ríkar ástæður eru til ef samkeppnislög hafa verið brotin eins og Samkeppnisstofnun hefur sett fram. Þetta er því ekkert annað en nöldur í Verslunarráði í framhaldi af bréfi sem t.d. Samtök atvinnulífsins lögðu fyrir efh.- og viðskn. þar sem beðið var um að fara í sjálfstæða rannsókn á því hvort framganga og vinnuaðferðir Samkeppnisstofnunar væru með öðrum hætti en gerist og gengur í öðrum löndum og nánast var ýjað að því í þessu bréfi að síðast þegar samkeppnislög voru samþykkt að viðskrh. hefði farið með rangt mál í þinginu að því er varðar samanburð á samkeppnislögum hér og annars staðar. Þetta er alveg með ólíkindum. Ég vísa til þess að t.d. í Noregi er heimilt að ganga mun lengra að því er varðar hald á gögnum, t.d. má að fara á heimili stjórnenda fyrirtækja ef samkeppnisyfirvöld telja ástæðu til. Ég skora því á hæstv. viðskrh. að vísa þessu makalausa máli og þessari kvörtun Verslunarráðs frá. Ef menn telja sig hafa yfir einhverju að klaga þá á það auðvitað að fara dómstólaleiðina. Það er alveg deginum ljósara.