2002-02-06 14:15:42# 127. lþ. 71.92 fundur 313#B bréf Verslunarráðs til viðskiptaráðherra um rannsókn Samkeppnisstofnunar á ólöglegu verðsamráði olíufélaganna# (aths. um störf þingsins), VE
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 127. lþ.

[14:15]

Vilhjálmur Egilsson:

Virðulegi forseti. Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson er býsna sannfærður um að farið hafi verið algerlega að lögum. Samt efast tugir starfsmanna í viðkomandi fyrirtækjum um að svo hafi verið gert. Þeir efast um það. (Gripið fram í: Þá eiga þeir að bera það undir dómstóla.) Málið er að í lögunum stendur að starfsmönnunum skuli bent á að þeir geti gert það en í engu tilviki var það gert. Að sjálfsögðu er það þannig þegar leit fer fram að ýmislegt kemur upp sem er persónulegt og tilheyrir starfsmanni persónulega, að sjálfsögðu. En það má ekki leggja hald á það vegna þess að það tilheyrir ekki málinu, það stendur í lögunum.

Það stendur líka í lögunum að lögreglumenn eigi að stjórna leit. Lögreglumenn stjórnuðu ekki þessari leit. Í engu tilviki voru ágreiningsmál borin undir lögreglumenn þegar þau komu upp. Í öllum tilvikum voru það starfsmenn Samkeppnisstofnunar sem stjórnuðu leit þannig að það er svo margt sem allt þetta fólk segir og þær raddir verða ekkert kveðnar niður. Það er þannig og mér hefur virst það vera svo að ef starfsmenn í fyrirtækjum eða borgarar almennt verða fyrir órétti af hálfu opinberra stofnana, þá er leitað til viðkomandi ráðherra, það er leitað til þingmanna. Þingmenn taka slík mál upp hér, hvert eftir annað og svo allt í einu í þessu tilviki má það ekki. Maður spyr: Er þessi stofnun hafin yfir lög?