Fríverslunarsamningur við Kanada

Miðvikudaginn 06. febrúar 2002, kl. 14:20:39 (4143)

2002-02-06 14:20:39# 127. lþ. 71.1 fundur 273. mál: #A fríverslunarsamningur við Kanada# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi RG
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 127. lþ.

[14:20]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Fríverslunarsamningar sem EFTA-löndin hafa gert hafa verið íslensku atvinnulífi mikil lyftistöng og skapað ný tækifæri. Nú eru liðin a.m.k. þrjú eða fjögur ár frá því að samningaviðræður hófust við Kanada. Fríverslunarsamningur við Kanada hefur jafnan verið talinn mikilvægastur af þeim samningum sem hafa verið á döfinni á þessum árum. Það eru skipasmíðar sem virðast helst hafa verið þröskuldur í vegi samninga við Kanada. Væntanlega eru það ríkisstyrkir sem hanga á spýtunni þar sem samkeppnisreglur og ríkisstyrkir snerta fríverslunarsamninga þó að meginefni þeirra sé fríverslun með iðnaðavörur, landbúnaðarvörur, fisk og fiskafurðir.

Um mitt ár 2000 var viðræðum við Kanada lýst sem forgangsverkefni fríverslunarsamtakanna og þá var búist við að fríverslunarsamningur milli EFTA og Kanada yrði undirritaður fljótlega. Síðan er liðið hátt á annað ár. Því spyr ég utanrrh. hvað gerst hafi í þessum málum síðan sendinefnd kom hingað frá Kanada 1998 til viðræðna og hvað veldur því að þýðingarmiklar viðræður við EFTA-ríkin hafi dregist svo óhóflega.

Mig langar í tilefni af þessari fyrirspurn minni, herra forseti, að rifja það upp að þingflokkur minn fór í heimsókn á Ísafjörð. Þar heimsóttum við mörg fyrirtæki og það var sérlega ánægjulegt að finna bjartsýni og áræði hjá mörgum þeim sem þar voru með nýsköpun að leiðarljósi. Ég vil minnast á fyrirtæki sem heitir 3X-Stál sem hefur sett upp dótturfyrirtæki í Kanada. Þeir flytja út vélbúnað til að nota í sjávarútvegi og m.a. hafa þeir sett upp að ég held þrjár rækjuverksmiðjur í Kanada. Í heimsókn þingflokksins kom fram hvað viðskiptaumhverfið væri þeim erfitt og kerfið þungt. Viðskiptavinir þeirra í Kanada sem kaupa vélbúnað frá Íslandi greiða toll 3--8% og munar um það í svona stórviðskiptum. Það getur orðið stórmál að koma íslenskum sjávarháttum inn í Kanada, kynna og verða ráðandi í slíkri starfsemi og auka slíka tegund viðskipta og þjónustu. Mörg íslensk fyrirtæki eru að fóta sig á þessum markaði og tollamál, en jafnframt breytt umhverfi þjónustuviðskipta, geta gerbreytt stöðu íslenskra fyrirtækja. Mér finnst því brýnt að heyra frá utanrrh. hvaða þættir þessa væntanlega fríverslunarsamnings skipta máli fyrir okkur, hvaða ný tækifæri skapast við niðurfellingu tolla og innflutningstakmarkana. Má reikna með að fríverslunarsamningur opni möguleika á öðrum sviðum, t.d. þjónustuviðskiptum af einhverju tagi? Hvaða viðskiptasamskipti eru þegar milli Íslands og Kanada sem fríverslunarsamningur hefur þýðingu fyrir?