Fríverslunarsamningur við Kanada

Miðvikudaginn 06. febrúar 2002, kl. 14:28:50 (4145)

2002-02-06 14:28:50# 127. lþ. 71.1 fundur 273. mál: #A fríverslunarsamningur við Kanada# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi RG
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 127. lþ.

[14:28]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. svarið. Þessi saga er auðvitað mjög athyglisverð. Það er afskaplega erfitt fyrir okkur EFTA-löndin ef það dugir ekki til að Norðmenn hætti að veita nýja styrki af því að ef land ætlar að binda sig við að fyrirtæki búi að fyrri styrkjum og að staða fyrirtækis sé e.t.v. sterk vegna styrkja sem hafa verið einhvern tíma áður, þá verður þetta erfitt því að varla er hægt að afnema gamla styrki. Það er ekki hægt að ganga lengra en að hætta fyrirgreiðslu af því tagi sem hér um ræðir.

Ráðherra kom ekkert inn á það hvort menn hafa séð fyrir sér einhverjar tillögur eða lausnir þar sem ekki á að halda skipasmíðunum utan við og ítarlegt svar ráðherrans gerði það að sjálfsögðu að verkum að honum gafst ekki tími til að koma inn á þær spurningar sem ég orðaði hér, hvaða þættir samningsins séu þýðingarmestir fyrir okkur.

Mér finnst staða okkar mjög alvarleg. Stutt er síðan við á Alþingi ræddum það hve erfitt það yrði fyrir Ísland ef þau lönd sem við höfum gert fríverslunarsamninga við í Evrópu verða aðilar að Evrópusambandinu og þar með breytist aðgangur okkar að mörkuðum þeirra. Ef við fáum ekki breytingar á samkomulagi við Evrópusambandið og miðað við fréttir undanfarna daga virðist það vera raunin að EES-samningurinn fæst ekki endurskoðaður og þó að ég ætli ekki að ræða þá stöðu hér og nú, þá er hún svo afdrifarík að hún undirstrikar mikilvægi þess að efla möguleika okkar á öllum vígstöðvum, leita nýrra markaða og koma vörum okkar á framfæri og greiða fyrir viðskiptasamböndum annars staðar svo sem þeim sem ég nefndi með þetta eina fyrirtæki sem ég heimsótti á Ísafirði sem er í raun í stórviðskiptum við Kanada og þar sem tollar og erfitt viðskiptaumhverfi þvælist nokkuð fyrir. Ég spyr því ráðherrann nánar út í það hverju við getum búist við fyrir Ísland ef Kanada stendur við loforð sitt um að koma með tillögur og að það reynist rétt vera að þeir séu staðráðnir í að ljúka þessum samningum. Hvernig metur ráðherrann að þetta verði fyrir okkur?