Hvalir

Miðvikudaginn 06. febrúar 2002, kl. 14:35:54 (4148)

2002-02-06 14:35:54# 127. lþ. 71.2 fundur 258. mál: #A hvalir# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., sjútvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 127. lþ.

[14:35]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Ég þakka fyrir ágætar fyrirspurnir. Svarið við fyrstu fyrirspurninni er eftirfarandi:

Engar beinar upplýsingar um stofnstærðir hvala liggja fyrir frá því seint á 19. öld. Það er fyrir tíma svokallaðra nútímahvalveiða. Sem hluti af vísindalegu mati á ástandi nytjategunda hvala hafa þó verið gerðir útreikningar á líklegum stofnstærðum fyrir tíma hvalveiða. Þessir útreikningar byggja á gögnum um núverandi stofnstærð út frá hvalatalningum og veiðisögu viðkomandi tegunda að gefnum forsendum um líffræðilega framleiðslugetu stofnsins. Slíkir útreikningar hafa verið gerðir fyrir stofna hrefnu og langreyðar hér við land. Þeir benda til að báðir þessir stofnar séu í góðu ástandi og yfir 70% af upprunalegri stærð en almennt er talið æskilegast hvað snertir afrakstursgetu að stofnar séu á bilinu 60--70% af upprunalegri stærð.

Þótt formlegar úttektir hafi ekki verið gerðar á fleiri tegundum benda fyrirliggjandi gögn til að stofnar sandreyðar og hnúfubaks séu einnig í góðu ástandi en steypireyður á líklega enn langt í land með að ná fyrri stofnstærð.

Önnur spurningin er: Hversu miklu af botnfiski er áætlað að tannhvalir og skíðishvalir sporðrenni á ári hverju?

Samkvæmt útreikningum sem byggja á fyrirliggjandi gögnum um stofnstærðir, viðverutíma, fæðuþörf og fæðuval éta allir hvalir árlega um 6 millj. tonna af sjávarfangi á hafsvæðinu umhverfis Ísland. Þar af er talið að rúmlega 2 millj. tonna séu fiskmeti en vegna gagnaskorts um fæðuval flestra tegunda er ekki unnt að flokka fiskmeti frekar. Minnsti skíðishvalurinn, hrefnan, er atkvæðamesti afræninginn hvað varðar heildarmagn og fiskát. Heildarmagnið er 2 millj. tonna og fiskmetið 1,2 millj. tonna. Samkvæmt mjög takmörkuðum gögnum sem liggja fyrir um fæðusamsetningu hrefnunnar, um 60 magasýni á 15 ára tímabili, nemur árlegt afrán hennar um 125 þús. tonnum af þorskfiskum, um 50 þús. tonnum af síli og ríflega 600 þús. tonnum af loðnu. Þessar tölur ber þó að taka með miklum fyrirvara þar eð gögnin að baki eru mjög takmörkuð og ekki tilviljunarbundið úrtak úr stofninum.

Af tannhvölum éta grindhvalur og andarnefja mest, 700--800 þús. tonn hvor tegund. Af þessum tegundum er smokkfiskur langstærsti hluti fæðunnar en grindhvalir éta þó rúmlega 150 þús. tonn af fiskmeti. Heildarneysla höfrungategundanna hnýðings og leifturs losar 400 þús. tonn samkvæmt útreikningum en hjá þessum tegundum samanstendur matseðillinn að mestu leyti af fiskmeti. Ekki er þó unnt á þessu stigi að leggja tölulegt mat á afrán þeirra á sérstökum fisktegundum eða tegundahópum. Rétt er að geta þess að útreikningar á heildarneyslu byggja að miklu leyti á stofnstærðarmati, og af aðferðafræðilegum ástæðum má ætla að stofnmat tannhvala sé frekar van- en ofmetið.

Þriðja spurningin er hvort fiskifræðingar Hafrannsóknastofnunar taki tillit til þess magns sem hvalir éta af botnfiski við ákvörðun á veiðikvótum fyrir hinar ýmsu botnfiskstegundir.

Eins og fram kemur í svörum við fyrri spurningum er fyrirliggjandi þekking á sviði fæðuvistfræði hvalategunda við Ísland af skornum skammti. Jafnframt er ljóst að heildarafrán af völdum hvala er verulegt og því brýnt að auka þekkingu okkar á hlutverki þeirra í vistkerfi hafsins umhverfis Ísland.

Á Hafrannsóknastofnuninni hafa verið gerðar frumtilraunir til að kanna hugsanleg áhrif þriggja skíðishvalstegunda, hrefnu, langreyðar og hnúfubaks, í fjölstofna líkani sem auk þess innihélt þorsk, loðnu og rækju. Þessar athuganir gefa m.a. vísbendingar um að vöxtur hvalastofnanna gæti haft veruleg áhrif á langtímaafrakstursgetu þorskstofnsins, allt að 20%, og einnig veruleg áhrif á loðnustofninn. Mikil óvissa ríkir þó um þessi áhrif. Stærstu óvissuþættir útreikninganna varða hlutdeild þorsks í fæðu hrefnunnar og framtíðarþróun í stærð hvalastofnanna. Vegna þeirrar miklu óvissu sem fólgin er í mati á þessum áhrifum hefur stofnunin ekki talið tímabært að taka sérstakt tillit til afráns af völdum hvala við ákvörðun á aflamarki botnfiskstegunda og hefur því verið gert ráð fyrir að þessi afránsáhrif séu hluti náttúrulegrar dánartíðni.