Hvalir

Miðvikudaginn 06. febrúar 2002, kl. 14:42:44 (4151)

2002-02-06 14:42:44# 127. lþ. 71.2 fundur 258. mál: #A hvalir# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 127. lþ.

[14:42]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Auðvitað stækka hvalastofnarnir ár frá ári. Hvalnum fjölgar náttúrlega stanslaust þegar engin veiði er ár eftir ár og áratug eftir áratug kannski. Það þarf ekki annað en heyra lýsingar sjómanna, sérstaklega á togaraflotanum, á því hversu mikil plága þessi ágangur hvalanna á miðunum er að verða, einnig sjómanna á nótaskipunum. Þessum skepnum fjölgar auðvitað ár frá ári þegar þær eru verndaðar og ekki veiddar. Friðunin á hvalnum eða hvalveiðibannið okkar var því mikið óheillaspor. Hæstv. ráðherra upplýsir að hvalir muni éta um 2 millj. tonna af fiski á ári. Þetta er reyndar sama svar og var gefið fyrir sex eða átta árum og þetta hlýtur að vaxa ár frá ári eftir því sem hvölunum fjölgar.

Hafrannsóknastofnun hefur gefið þá viðvörun ár eftir ár að við megum vænta þess að þurfa að minnka fiskveiðar okkar um allt að 10% ef ekki verður við brugðist og hvalveiðar hafnar að nýju.

Ég vil aðeins af því að tími minn er búinn segja að ummæli hv. þm. Marðar Árnasonar um fyrirspyrjanda, þ.e. að kalla fyrirspurnina popúlískan bjánahátt, eru hv. þm. Merði Árnasyni til skammar.