Kynning á málstað Íslands í hvalveiðimálum

Miðvikudaginn 06. febrúar 2002, kl. 15:02:07 (4166)

2002-02-06 15:02:07# 127. lþ. 71.3 fundur 324. mál: #A kynning á málstað Íslands í hvalveiðimálum# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., GunnB
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 127. lþ.

[15:02]

Gunnar Birgisson:

Herra forseti. Við vorum áðan að ræða um jafnvægi í lífríkinu og sjálfbæra þróun. Núna ætla ég að koma aftur að þessari heimsókn til Írlands þar sem við ræddum við hagsmunaaðila í sjávarútvegi og stjórnmálamenn úr öllum flokkum. Á Írlandi héldu menn að hvalir við Ísland væru í útrýmingarhættu. Þeim var málið ekki betur kunnugt en svo. Við reyndum að bæta úr því og koma betri þekkingu til þeirra en hafði verið.

Varðandi síðan Bandaríkin er ákveðinn tvískinnungur hjá þeim. Bandaríkjamenn veiða mikið af höfrungum og gera það kannski ekki á mjög vistvænan hátt. Svo er það líka spurningin sem við verðum að spyrja okkur: Eigum við að láta hvalina éta okkur út á gaddinn eða eigum við að reyna að nýta hvalina eins og hvern annan nytjafisk hér við land? Það er spurning. Það er enginn popúlismi eins og hv. þm. Mörður Árnason var að gefa í skyn áðan.