Kynning á málstað Íslands í hvalveiðimálum

Miðvikudaginn 06. febrúar 2002, kl. 15:04:40 (4168)

2002-02-06 15:04:40# 127. lþ. 71.3 fundur 324. mál: #A kynning á málstað Íslands í hvalveiðimálum# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 127. lþ.

[15:04]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Nú eru tæp þrjú ár síðan Alþingi samþykkti tillögu mína og fleiri þingmanna um að heimila hvalveiðar að nýju og aflétti þar með því hvalveiðibanni sem hafði staðið í 16 ár. Eins og hér hefur komið fram er ríkisstjórninni falin framganga málsins, þ.e. kynning og undirbúningur. Í svörum ráðherra kom fram að til þess hafi verið varið nú þegar hátt í 60 millj. og verði varið 25 millj. til viðbótar á þessu ári. Ég tel að tími undirbúnings sé liðinn. Við getum ekki beðið lengur. Við eigum að hefja þessar veiðar samkvæmt ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar þar sem færustu vísindamenn heims á þessu sviði halda til. Við eigum að leggja áætlun okkar fyrir vísindanefnd Alþjóðahvalveiðiráðsins í haust og hefja þessar veiðar.

Það er auðvitað rétt sem hér hefur komið fram, það er ekki nóg að veiða. Menn verða að geta selt afurðirnar. Ég spyr hæstv. sjútvrh. því að ég veit að hann hefur kynnt sér það: Hver eru viðbrögð Japana sem eru helstu kaupendur þessara afurða? Hann hefur kynnt sér hvernig þeir munu standa að þessum viðskiptum þegar við hefjum veiðarnar á ný. Ég segi ,,þegar`` vegna þess að auðvitað hefjum við þær. En hver eru viðbrögð Japana varðandi kaup á afurðum okkar þegar við hefjum veiðarnar?