Kynning á málstað Íslands í hvalveiðimálum

Miðvikudaginn 06. febrúar 2002, kl. 15:10:55 (4173)

2002-02-06 15:10:55# 127. lþ. 71.3 fundur 324. mál: #A kynning á málstað Íslands í hvalveiðimálum# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., Fyrirspyrjandi MS
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 127. lþ.

[15:10]

Fyrirspyrjandi (Magnús Stefánsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin við fyrirspurninni. Ég vil einnig þakka hinum fjölmörgu hv. þingmönnum fyrir að hafa tekið þátt í þessari umræðu. Það var ljóst þegar þessi þáltill. var unnin og samþykkt fyrir þremur árum að mikið stríð væri í vændum, mikið áróðursstríð sem mundi kosta mikið fjármagn.

Það liggur fyrir að vilji almennings er sá að hvalveiðar verði hafnar og vilji Alþingis hefur komið fram. Ég vil hvetja hæstv. ráðherra til dáða í málinu. Við þurfum að geta hafið þessar veiðar sem allra fyrst en það þarf auðvitað að undirbúa það og ég vonast til þess að heyra yfirlýsingu frá hæstv. sjútvrh., helst á morgun, um að hvalveiðar skuli fara af stað (Gripið fram í: Ekki í dag?) og ég veit að veiðimennirnir bíða. Ég geri ekki kröfu til þess að yfirlýsingin komi í dag. Við skulum gefa hæstv. ráðherra tóm til að undirbúa hana, fyrir morgundaginn þá. En veiðimennirnir bíða og þjóðin bíður. Ég hvet hæstv. ráðherra því til þess að koma hlutum þannig fyrir að menn geti farið að gera út á hvalveiðar sem allra fyrst, helst á morgun.