Einkarekstur göngudeildar við Landspítala -- háskólasjúkrahús

Miðvikudaginn 06. febrúar 2002, kl. 15:17:25 (4176)

2002-02-06 15:17:25# 127. lþ. 71.4 fundur 303. mál: #A einkarekstur göngudeildar við Landspítala -- háskólasjúkrahús# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 127. lþ.

[15:17]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Virðulegi forseti. Hugmyndir um að gera læknum kleift að reka göngudeildir og gera ferliverk á eigin vegum í húsnæði sem tengist sjúkrahúsi eru ekki nýjar af nálinni. Þessar hugmyndir hafa komið fram í kjölfar m.a. þess að sérfræðingar hafa í ríkari mæli komið sér upp eigin stofum og aðstöðu til rannsókna og aðgerða utan spítala sem byggjast að mestu á samningum við Tryggingstofnun ríkisins. Þetta hefur valdið því að sjúklingar hafa átt þess kost að sækja þjónustu á einkareknar stofur og læknar hafa átt þess kost að skipta vinnutíma sínum milli sjúkrahúss og eigin stofu.

Heilbr.- og trmrh. útilokar ekki fyrir fram að til greina kæmi að reka tiltekna afmarkaða þjónustuþætti undir merkjum einkarekstrar í starfstengslum við sjúkrahús að ákveðnum ströngum skilyrðum uppfylltum. Forsendur fyrir rekstri af þessu tagi væru hinn almenni og jafni réttur allra til þjónustu, óháð efnahag og félagslegri stöðu.

Herra forseti. Miklar breytingar hafa orðið á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi eftir að Sjúkrahús Reykjavíkur og Ríkisspítalarnir voru sameinuð. Sérgreinar hafa verið sameinaðar sem ekki er aðeins ætlað að auka gæði þjónustunnar heldur einnig að auka hagkvæmni rekstrarins og opna möguleika á betri nýtingu mannafla, tækja og húsnæðis. Stjórnendur spítalans hafa lýst yfir vilja sínum til að auka göngudeildarstarfsemi sem ég tel jákvæða þróun því að tækniframfarir og aukin þekking hafa leitt til þess að unnt er að sinna æ fleiri sjúklingum án þess að til innlagnar á sjúkrahús þurfi að koma. Aukin áhersla á þjónustu við sjúklinga á göngudeildum og dagdeildum er því í takt við nútímaheilbrigðisþjónustu. Í þessum efnum verðum við hins vegar að fara að öllu með gát og hugsa fyrst og síðast um hagsmuni og velferð sjúklinga því að þeir hagsmunir mega aldrei verða víkjandi gagnvart margþættum rekstrarlegum röksemdum og hagsmunum.

Í kjölfar nýlegrar breytingar á lögum um heilbrigðisþjónustu hefur verið skipuð samninganefnd sem ætlað er að semja við sjúkrahús og læknastofur um ferliverk á sjúkrahúsum og læknisverk á stofum. Fram til þessa hefur samninganefnd Tryggingastofnunar ríkisins samið við einkastofur en heilbr.- og trmrn. við sjúkrahúsin. Með því að fela einum aðila að semja um þessa þjónustu fyrir hönd ríkisins hefur skapast meira jafnræði milli þeirra aðila sem veita þjónustuna. Rekstrarlegt umhverfi þeirra er að breytast og stjórnvöld hafa betri möguleika á að koma stefnumótun sinni og forgangsröðun í framkvæmd.

Hin nýja samninganefnd hefur hins vegar einungis umboð til að semja við sjúkrahúsin um svokölluð ferliverk en ekki almenna göngudeildarþjónustu eða aðra spítalastarfsemi. Hefðbundin spítalastarfsemi býr áfram við fjárveitingar á fjárlögum.

Virðulegi forseti. Ég hef lýst þeirri skoðun minni fyrr í umræðum um sambærileg efni að ég geri greinarmun á einkarekstri og einkavæðingu í heilbrigðisþjónustu. Ég geri engar athugasemdir við einkarekstur sem byggist á hefðum, reynslu og þeirri sátt sem hefur verið um stofurekstur lækna sem byggist á samningum við Tryggingastofnun ríkisins en ég hafna hins vegar almennt einkavæðingu í heilbrigðisþjónustu.