Einkarekstur göngudeildar við Landspítala -- háskólasjúkrahús

Miðvikudaginn 06. febrúar 2002, kl. 15:23:17 (4179)

2002-02-06 15:23:17# 127. lþ. 71.4 fundur 303. mál: #A einkarekstur göngudeildar við Landspítala -- háskólasjúkrahús# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi KPál
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 127. lþ.

[15:23]

Fyrirspyrjandi (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Hér er ekki verið að tala um að einkavæða eins og mér finnst hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir vera að tala um eða hæstv. ráðherra. Það er verið að tala um aðferðir sem hafa nýst til þess að hagræða innan spítalanna og þjóna viðskiptavinum heilbrigðisstofnana betur.

Það er reyndar rétt eins og komið hefur fram að mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þessi bréf gengu á milli. Hæstv. ráðherra sagði að gengið hefðu í gildi samningar við lækna sem eru með einkastofur sínar úti í bæ. En það er að mati margra lækna líka orðið dálítið vandamál hvað þessar einkareknu stofur eru orðnar margar og langt frá spítalanum. Það er því orðinn aðskilnaður í fjarlægð milli spítalanna og þessara einkareknu stofa sem hamlar kannski að mörgu leyti hagræðingu. Læknar sem starfa á þessum vettvangi segja mér að þeir sæju ekki neitt athugavert við göngudeild við hliðina á spítalanum sem rekin yrði á verktakamarkaði í tengslum við Tryggingastofnun og sjúkrahúsin. Það mundi ekki endilega raska því jafnvægi sem er núna heldur mundi það eingöngu auka möguleika á að spara fjármuni spítalans, auka hagræði og við getum sagt samskipti við sjúklinga.

Ég ætla ekki að fara mikið lengra út í þetta, herra forseti. Ég heyri að hæstv. heilbrrh. er ekki eins opinn fyrir þessari leið og fyrirrennari hans var og finnst mér það miður.