2002-02-06 15:27:57# 127. lþ. 71.5 fundur 399. mál: #A þátttaka almannatrygginga í ferðakostnaði foreldra barna á meðferðarstofnunum# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 127. lþ.

[15:27]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég spyr um þátttöku almannatrygginga í ferðakostnaði foreldra barna á meðferðarstofnunum. Almannatryggingar greiða núna ferðakostnað sjúkra barna og foreldra þeirra eftir ákveðnum reglum ef þau þurfa að sækja heilbrigðisþjónustu um langan veg eða ef foreldrar heimsækja börn sín á sjúkrastofnun um langan veg. Þessi greiðsla ferðakostnaðar er verulegur stuðningur við foreldra sjúkra barna en ég hef ekki tíma til að fara yfir þær reglur í smáatriðum hér.

Foreldrum barna í vímuefnavanda hefur verið synjað um allan stuðning frá Tryggingastofnun, bæði umönnunargreiðslur og ferðakostnað. Þó er litið á vímuefnafíkn sem sjúkdóm í velferðarþjónustu okkar, samanber meðferð á Vogi vegna áfengissýki og greiðslur fyrir hana. Börn og unglingar sem ánetjast hafa fíkniefnum eru send til meðferðar á meðferðarheimili oft fjarri heimilum sínum. Foreldrum er skylt að sækja samráðsfundi reglulega, eigi sjaldnar en 4--5 sinnum á ári. Oft hefur það verið einu sinni í mánuði auk þess sem barnið eða sjúklingurinn fer heim um helgar sem er hluti af þeirri meðferð að aðlagast heimilinu aftur.

Foreldrar þessara barna hafa ekki fengið neinn fjárhagsstuðning til að taka þátt í þessari meðferð og vegna þessa kostnaðar. Ég er hér með bréf frá móður drengs í Reykjavík sem fyrst var vistaður á Jökuldal. Það hafði í för með sér verulegan ferðakostnað, flug til Egilsstaða --- það er yfir 30 þús. kr., bara flugið fyrir foreldrana. Nú er drengurinn vistaður norður í landi og þurfa foreldrar hans að aka a.m.k. 700 km og gista eina nótt auk þess sem foreldrarnir hafa þurft að taka megnið af sumarfríi sínu í þessar ferðir en drengurinn er búinn að eiga í þessu í hátt á annað ár og mun verða í meðferð fram á sumar. Kostnaðurinn hefur verið á annað hundrað þús. kr. bara í ferðirnar norður í land þó að ódýrasta leiðin hafi ávallt verið valin. Þar sem ekki er komið í neinu til móts við kostnað þessara foreldra er það lág- og millitekjufólki mjög erfitt og stundum jafnvel ofviða að standa undir kostnaði við meðferð þessara sjúku barna sinna. Ferðakostnaðurinn er eitt og svo er mikill annar kostnaður eins og heilbrigðiskostnaður. Í tilviki móðurinnar sem skrifaði mér var tannlæknakostnaður sem er afleiðing fíkniefnanotkunarinnar hátt í 60 þús. kr. á síðasta ári en hann fæst ekki að neinu greiddur hjá Tryggingastofnun auk þess sem þau greiða andvirði eins meðlags til stofnunarinnar sem hann dvelur á. Ég spyr því hæstv. ráðherra:

Hvaða rök eru fyrir því að ekki gilda sambærilegar reglur um þátttöku almannatrygginga í ferðakostnaði foreldra barna sem dveljast á meðferðarstofnunum fjarri heimili --- en foreldrum ber að taka þátt í meðferð þeirra --- og ferðakostnaði foreldra barna sem dveljast á sjúkrastofnunum innan lands?

Telur hæstv. ráðherra ástæðu til að samræma ferðakostnaðarreglur almannatrygginga innan lands þannig að jafnræði ríki með þessum hópum?