2002-02-06 15:35:45# 127. lþ. 71.5 fundur 399. mál: #A þátttaka almannatrygginga í ferðakostnaði foreldra barna á meðferðarstofnunum# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 127. lþ.

[15:35]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég þakka þessa umræðu og ráðherra fyrir svörin. Það er ljóst að vímuefnasjúklingar eru sjúklingar. Þeir eiga í þessum veikindum oft lengi og meðferðinni fylgir mikill kostnaður foreldra, en hvorki umönnunarkostnaður né ferðakostnaður, sem er ærinn eins og ég nefndi í fyrri ræðu minni, eru greiddir af velferðarkerfinu. Ég get vitnað í bréf frá foreldrum. Um er að ræða foreldra á höfuðborgarsvæðinu sem taka þátt í meðferð barna sinna úti á landi. Þeir fá ekki greiddan neinn kostnað. En þegar foreldrar barna utan af landi koma hingað suður til að fá heilbrigðisþjónustu sem þeir geta ekki fengið úti á landi, þá er greitt.

Vissulega er það af hinu góða hvernig greitt er þegar langveik börn eiga í hlut. Það þarf auðvitað að fá miklu meiri stuðning við foreldra þeirra. En þarna er hópur og þarna eru foreldrar sem geta ekki í sumum tilfellum staðið straum af kostnaðinum. Ég ætla að vitna í bréf þessarar móður sem skrifaði mér. Hún segir við mig í bréfinu, með leyfi forseta:

,,Ég verð að biðja þig að koma þessum málum til þeirra sem geta komið til hjálpar foreldrum sem eru í sömu stöðu og við. Það gengur ekki að börn séu tekin of fljótt úr meðferð vegna þess að það er of dýrt að halda þeim þar.``

Foreldrar með millitekjur og fátækir foreldrar geta ekki staðið straum af kostnaði við meðferð þessara barna sinna sem eru alvarlega veik því börn í vímuvanda eru oft í lífshættu. Við vitum það. Ég hvet hæstv. ráðherra að ráða bót á þessu því að í dag er stuðningurinn ekki frá félagsmálayfirvöldum, ekki frá almannatryggingunum og ekki frá verkalýðshreyfingunni nema í einstaka undantekningartilfellum að þessir foreldrar hafa fengið styrk. Ég tel löngu tímabært að jafnræði ríki með þessum foreldrum og þessum börnum í meðferð eins og öðrum sjúkum börnum og foreldrum þeirra.