Bólusetning gegn barnasjúkdómum

Miðvikudaginn 06. febrúar 2002, kl. 15:43:22 (4187)

2002-02-06 15:43:22# 127. lþ. 71.6 fundur 420. mál: #A bólusetning gegn barnasjúkdómum# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 127. lþ.

[15:43]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur beint til mín spurningum um bólusetningu gegn barnasjúkdómum.

Í fyrsta lagi er spurt hvort farið hafi fram umræða eða rannsókn í heilbrigðiskerfinu hér á landi með hliðsjón af umræðu sem farið hefur fram í öðrum löndum um hugsanleg tengsl bólusetningar gegn barnasjúkdómum og einhverfu.

Því er til að svara að af og til berast fréttir af skaðlegum afleiðingum bólusetninga sem eru til þess fallnar að draga úr tiltrú almennings á þeim. Þegar þeir sjúkdómar sem bólusett er gegn hverfa úr samfélaginu er hætt við að fólk gleymi þeim afleiðingum sem sjúkdómarnir höfðu. Athyglin beinist þá að hugsanlegum aukaverkunum sem bólusetningar kunna að hafa. Allar ábendingar um hugsanlegar skaðlegar afleiðingar bólusetningar eru teknar alvarlega og þær sérstaklega kannaðar. Þess vegna hafa verið kannaðar getsakir um að bólusetning með þrígildu bóluefni gegn mislingum, rauðum hundum og hettusótt sem gefin er við 18 mánaða aldur geti valdið einhverfu.

Finnsk langtímarannsókn sem hófst árið 1982 á börnum sem bólusett voru á aldrinum 14--18 mánaða og sex ára og tók til 3 millj. skammta miðað við árslok 1996 leiddi ekki í ljós eitt einasta tilfelli af heilkenni einhverfu sem hægt var að tengja þessu þrígilda bóluefni.

Önnur rannsókn frá Bretlandi sem tók til 498 tilfella af heilkenni einhverfu leiddi í ljós stöðuga aukningu á heilkenninu frá árinu 1979, þ.e. löngu áður en bólusetning með þrígilda bóluefninu hófst árið 1989. Ekki varð vart aukningar á heilkenni einhverfu sem rekja mátti til bólusetninganna eftir að þær hófust. Niðurstöður þessara rannsókna styðja því ekki tilgátuna um tengsl á milli bólusetninga með þrígilda bóluefninu og heilkennisins en hv. þm. spurði einnig hvort ástæða væri til að ætla að varasamt gæti verið að nota þetta bóluefni.

Þess má geta að hér á landi hafa Bjarni Þjóðleifsson læknir og fleiri rannsakað hvort bólusetning með þrígilda bóluefninu valdi garnabólgu en slík bólga er undirstaða kenningarinnar um samband bólusetningarinnar við einhverfu.

Niðurstaða þeirra rannsókna bendir ekki til að þrígilda bóluefnið valdi slíkri bólgu. Þannig benda hvorki faraldsfræðlegar rannsóknir né rannsóknir á meintri meingerð sjúkdómsins til að þrígilda bóluefnið tengist einhverfu. Þá hafa sálfræðingarnir Páll Magnússon og Edvald Sæmundsen birt íslenska rannsókn á tíðni einhverfu sem sýnir aukningu hér á landi sem annars staðar. Þessi aukning hófst að mestu áður en bólusetningarnar með þrígilda bóluefninu hófust hér á landi. Telja höfundar að bætt greiningartækni og breyting á skilgreiningu heilkennis einhverfu geti skýrt þessa aukningu að einhverju leyti.

Því er ekki ástæða til að ætla að bólusetning gegn mislingum, rauðum hundum og hettusótt sem gefin er í einni sprautu tengist einhverfu.

Að lokum spyr hv. þm. um fyrirkomulag á bólusetningu gegn mislingum, rauðum hundum og hettusótt, en því er þannig hagað hér á landi að öllum börnum sem eru 18 mánaða og 12 ára að aldri er boðin slík þrígild bólusetning í einni sprautu, í hvort skiptið forráðamönnum þeirra að kostnaðarlausu. Bólusetning með þessu þrígilda bóluefni hófst 1989, fyrst eingöngu meðal 18 mánaða barna en árið 1994 einnig meðal níu ára barna. Var það gert til að flýta fyrir því að rauðum hundum yrði bægt frá en faraldur af rauðum hundum gekk hér á landi á árunum 1992--1996 meðal óbólusettra.

Frá árinu 1996 hafa rauðir hundar ekki gengið hér á landi. Frá miðju síðasta ári var seinni bólusetningin færð frá níu ára aldri til 12 ára aldurs til þess að seinni rauðu hunda bólusetningin lægi nær barneignaraldrinum. Ekki er fyrirhuguð nein breyting á því fyrirkomulagi að bjóða þrígilt bóluefni gegn mislingum, rauðum hundum og hettusótt í einni sprautu, enda mikið hagræði að því að gefa þessi bóluefni saman.