Vegaframkvæmdir á Hellisheiði og í Þrengslum

Miðvikudaginn 06. febrúar 2002, kl. 15:56:16 (4192)

2002-02-06 15:56:16# 127. lþ. 71.15 fundur 432. mál: #A vegaframkvæmdir á Hellisheiði og í Þrengslum# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 127. lþ.

[15:56]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ólafi Björnssyni fyrir þessar fyrirspurnir og að fá tækifæri til þess að svara þeim hér.

Fyrri spurningin var: ,,Eru áform um að setja upp veglýsingu á þjóðvegi nr. 1 frá Reykjavík um Hellisheiði til Hveragerðis og um Þrengsli til Þorlákshafnar?``

Svar mitt er svohljóðandi: Í gildandi vegáætlun fyrir árin 2000--2004 eru engar fjárveitingar sérstakar til að setja upp veglýsingu við þjóðveginn yfir Hellisheiði og um Þrengsli. Hins vegar er unnið að hönnun lýsingarinnar og verða kostnaðaráætlanir lagðar fram ásamt öðrum áætlunum til ákvörðunar á niðurröðun framkvæmda við endurskoðun vegáætlunar nú í vetur. Ef frv. til laga um samgönguáætlun verður að lögum á þessu þingi verður jafnframt mótuð ný heildarstefna í lýsingu þjóðvega í dreifbýli. Tillögur þar að lútandi munu koma fram í till. til þál. um samgönguáætlun 2003--2012 næsta haust ef, eins og ég sagði áður, frv. verður að lögum á þessu þingi og þannig er unnið að þessu máli.

Hins vegar er á það að benda að þingmenn Suðurl. höfðu lagt ríka áherslu á að vinna að því að koma upp lýsingu á þessum leiðum. Í vinnslu var tiltekin fjármögnun, bæði á hönnun og framkvæmdum. Í því ljósi hef ég unnið að þessu máli.

Í annan stað er spurt:

,,Eru uppi önnur áform um vegabætur á framangreindum leiðum?``

Mitt svar er þetta: Unnið hefur verið að undirbúningi vegna ýmissa endurbóta á umræddum leiðum. Má þar t.d. nefna endurbætur á vegamótum Hringvegar og Þrengslavegar. Áætlanir þessar verða einnig lagðar fram við endurskoðun vegáætlunar á þessu ári, í vetur. Jafnframt vísast með sama hætti og í fyrra svarinu til samgönguáætlunar sem mun væntanlega taka á þessum mikilvægu samgöngubótum sem hv. þm. vakti réttilega athygli á að eru nauðsynlegar, ekki síst með tilliti til þess að þarna er vaxandi umferð, bæði þungaflutningar í þágu atvinnulífsins og einnig vaxandi umferð vegna ferðamannaþjónustu og þeirra fjölmörgu sem nýta sér þá uppbyggingu sem farið hefur fram á Suðurlandi til að sinna þeirri vaxandi atvinnugrein sem ferðaþjónustan er. Ég bind því vonir við að í endurskoðaðri vegáætlun, ekki síður í hinni samræmdu samgönguáætlun sem ég geri ráð fyrir að verði afgreidd innan tíðar, verði tekið með öflugum og afgerandi hætti á þessum mikilvægu verkefnum.