Stjórnsýsla samgönguráðherra í máli læknis Flugmálastjórnar

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 10:33:32 (4202)

2002-02-07 10:33:32# 127. lþ. 72.94 fundur 318#B stjórnsýsla samgönguráðherra í máli læknis Flugmálastjórnar# (umræður utan dagskrár), Flm. LB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 127. lþ.

[10:33]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Það mál sem er hvatinn að því að þessi umræða fer hér fram er í sjálfu sér ekki stórt í sniðum og undir öllum eðlilegum kringumstæðum hefðu stjórnvöld átt að fara létt með að afgreiða þetta mál. En af einhverjum óútskýranlegum ástæðum hefur hæstv. samgrh. steypt sér inn í þetta mál með þeim hætti að það er allt komið í hnút og að mörgu leyti búið að stefna hagsmunum Íslendinga í flugöryggismálum í uppnám.

Ég held að málsins vegna sé nauðsynlegt að rifja upp örstutta lýsingu á málavöxtum en það er nokkurn veginn á þá leið að heilbrigðisvottorð flugmanns var dregið til baka þann 10. ágúst árið 2001 sökum þess að hann var ekki talinn uppfylla heilbrigðisskilyrði. Sú ákvörðun var kærð 24. ágúst til áfrýjunarnefndar sem er endanlegur úrskurðaraðili á því sviði. Hæstv. samgrh. skipaði þá nefnd eins og lög gera ráð fyrir og hún komst að þeirri niðurstöðu að tiltekinn flugmaður uppfyllti skilyrði íslensku heilbrigðisreglugerðarinnar en sagði í raun og veru ekkert meira. Læknir Flugmálastjórnar komst að þeirri niðurstöðu að hann treysti sér ekki til að gefa út hreint heilbrigðisvottorð og gerði það með skilyrðum en þá eiginlega byrjar þessi saga, því hæstv. ráðherra, sem hefur ekki valdsvið yfir þessari áfrýjunarnefnd því það er endanlegt á sviði stjórnsýslu, tekur það upp hjá sjálfum sér að segja lækninum fyrir verkum, þ.e. hvað hann nákvæmlega eigi að gera, hvers konar vottorð hann eigi að gefa út þrátt fyrir að hann hafi ekkert vald til þess að fjalla um það mál. Það er, að mínu viti, klár valdníðsla því hann tekur sér vald sem hann ekki hefur. Læknirinn fellst ekki á þetta en þrátt fyrir það er þetta ítrekað og læknirinn gengur frá málinu.

Í þessum tveimur tilvikum, tveimur úrskurðum ráðuneytisins, vil ég leyfa mér að fullyrða að hæstv. samgrh. hafi beitt valdníðslu, tekið sér vald sem hann ekki hefur og lagt fyrir lækninn að gefa út vottorð sem hann hefur ekkert með að gera.

Þetta mál er miklu alvarlegra en svo að það lúti bara að þessu litla máli vegna þess að Íslendingar eru aðilar að svokölluðum flugöryggissamtökum Evrópu. Það er samstarf 36 ríkja. Þau ríki hafa með sér sameiginlegar reglur, reglur sem hlaupa á þúsundum síðna. Við höfum þýtt og gefið út 150 síður af þessum þúsundum síðna, það er allt og sumt sem við höfum gert. Hæstv. ráðherra gaf nefndinni á sínum tíma fyrirmæli um að hún skyldi einungis virða þessar 150 síður sem hafa verið þýddar, sem þýðir í rauninni að við ætlum ekki að fullu að fara eftir þessum reglum, sem þýðir í rauninni að skírteini sem gefin eru út á Íslandi uppfylla ekki lágmarkskröfur sem þessi JAA-ríki setja sem gerir það að verkum að menn sem hafa íslensk skírteini geta flogið í lofthelgi þessara ríkja og þeir geta unnið í þeim ríkjum. Þetta er hæstv. ráðherra búinn að setja í uppnám með vinnubrögðum sínum.

Þegar allt var komið í óefni skipar hæstv. ráðherra nefnd, að hætti forsrh. þegar þarf að þrífa til í einhverjum málum. Hver er formaður nefndarinnar? Jú, það er lögmaður Símans til langs tíma. Og hverjir sitja í nefndinni? Jú, það er starfsmaður ráðuneytisins sem hafði fjallað um og séð m.a. um alla þessa stjórnsýslu, þessir tveir. Reyndar sá nú starfsmaður ráðuneytisins sæng sína upp reidda og sagði sig úr nefndinni eftir 20 daga því að nefndin starfaði í 25 daga, en eftir 20 daga sagði starfsmaðurinn sig frá nefndinni. Þannig að það segir sitt um það hvernig á því stendur að niðurstaða nefndarinnar er eins og hún er. Hún er reyndar þess eðlis að hún segir nánast ekki neitt. Nefndin segir nánast ekki nokkurn skapaðan hlut.

Til að kóróna alla þessa vitleysu, þá leyfir hæstv. ráðherra sér að leka í fjölmiðla niðurstöðu úr þessari nefnd áður en læknirinn sem um ræðir fær að sjá hana. Með öðrum orðum, hann lekur í fjölmiðla niðurstöðu nefndar sem reyndar er ekki fullkomlega rétt. Ég segi: Hvers eiga borgarar landsins að gjalda í tilvikum eins og þessum? Hvað eru yfirvöld að fara þegar þau leka í fjölmiðla upplýsingum sem hugsanlega koma borgurunum illa, til þess að reyna að líta þokkalega út pólitískt? Ég segi nú bara ekki annað: Hvers konar yfirvöld höfum við í þessu máli?