Stjórnsýsla samgönguráðherra í máli læknis Flugmálastjórnar

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 10:43:56 (4204)

2002-02-07 10:43:56# 127. lþ. 72.94 fundur 318#B stjórnsýsla samgönguráðherra í máli læknis Flugmálastjórnar# (umræður utan dagskrár), JB
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 127. lþ.

[10:43]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Það er afar mikilvægt að svo sé staðið að flugöryggismálum hér á landi að þau njóti trúnaðar, bæði hjá farþegum og neytendum og einnig þeirra sem best þekkja hvað varðar tæknilega og mannlega þætti í flugi. Um þetta þurfa að vera skýr lög og skýrar reglur sem eru í samræmi við það sem aðrar þjóðir, sem við erum í flugsamstarfi við, fara eftir. Þar þarf líka að vera gagnkvæmt traust og vissulega er það alvörumál fyrir einstakling sem fær vinnuvottorð með kvöðum, og eðlilegt að viðkomandi sæki rétt sinn svo sem lög kveða á um. Að sjálfsögðu ber að haga allri málsmeðferð stjórnsýslulega á réttan hátt.

Hitt, herra forseti, verður að setja spurningarmerki við að þegar ráðuneyti skipar rannsóknarnefnd til þess að rannsaka gerðir sem ráðuneytið ber beina eða óbeina ábyrgð á sjálft þá eru það að mínu mati ekki að fullu trúverðug vinnubrögð af hálfu ráðuneytisins eins og samgrn. hefur staðið að málum. Mér virðist stjórnsýsla þessa máls öll hin furðulegasta og maður áttar sig ekki lengur á hvort mál þetta snýst um tæknileg atriði í stjórnsýslu eða öryggismál í flugi og hvort við störfum þar eftir sömu reglum í öryggismálum og nágrannaþjóðir okkar gera.

Herra forseti. Mér virðist samgrn. bera alla ábyrgð á því klúðri sem hér birtist og ég vona svo sannarlega að það hafi ekki, áður en þarna verður réttur kúrs á, afdrifaríkar afleiðingar fyrir samstarf okkar í öryggismálum í flugi við aðrar þjóðir.