Stjórnsýsla samgönguráðherra í máli læknis Flugmálastjórnar

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 10:53:11 (4208)

2002-02-07 10:53:11# 127. lþ. 72.94 fundur 318#B stjórnsýsla samgönguráðherra í máli læknis Flugmálastjórnar# (umræður utan dagskrár), KF
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 127. lþ.

[10:53]

Katrín Fjeldsted:

Herra forseti. Of stuttur tími gefst til þess að fara yfir málið, enda hefur hæstv. samgrh. gert grein fyrir því í ræðu sinni. Úttektarnefndin sem skilað hefur áliti einróma kemst að þeirri niðurstöðu að stjórnsýslulög hafi verið brotin þrátt fyrir fyrirmæli ráðuneytisins um að mál flugmannsins yrði afgreitt í samræmi við niðurstöður áfrýjunarnefndar og gildandi lög og reglur.

Úttektin leiðir í ljós að samgrh. hafi hreinan skjöld og hafi í einu og öllu farið með málið í samræmi við góða stjórnsýsluhætti. Ég legg sérstaka áherslu á það.

Í viðbótarumsögn landlæknis segir, með leyfi forseta:

,,Í samantekt er því ljóst að niðurstaða trúnaðarlæknis Flugmálastjórnar um að skilyrða útgáfu flughæfnisvottorðs byggðist á gildum læknisfræðilegum rökum.`` --- Áfram segir: ,,Stjórnsýslulega hefði verið ástæða til að standa öðruvísi að málum í þá veru að leita hefði átt álits úrskurðarnefndar á því að setja skilyrði fyrir flughæfnisvottorði.``

Ég þekki trúnaðarlækni Flugmálastjórnar að góðu einu, tel hann reyndar vera valinkunnan sæmdarmann, en það er ráðherra samgöngumála einnig. Báðir eru vandir að virðingu sinni en þó verða menn að varast að setja þetta mál upp sem misklíð þeirra á milli því um það snýst þetta ekki. Eftir því sem skilja má af fréttum vefengja samtök flugmanna einnig störf fluglæknis á Akureyri. Sé svo þykir mér rétt að undirstrika mikilvægi þess að Flugmálastjórn láti ekki undan þrýstingi hagsmunaaðila. Hér er um að ræða atvinnuöryggi flugmanns en einnig öryggi flugfarþega í framtíðinni sem almenningur gerir kröfu um að sé fyllilega tryggt. Lögmenn úti í bæ hafa hvorki þekkingu né vald til að stýra því hvernig læknir starfar og heldur ekki hvaða læknar starfa hjá opinberri stofnun sem þeir hafa samskipti við. Læknir verður einnig að geta starfað í sátt við yfirmenn sína.

Ég hvet til þess að reynt verði að leita sátta í málinu og lausna til framtíðar. Umræður af þessu tagi, herra forseti, geta valdið ómældum skaða og þær verða Gróu á Leiti og púkanum á fjósbitanum til einskærrar ánægju en engum til gagns.