Stjórnsýsla samgönguráðherra í máli læknis Flugmálastjórnar

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 10:55:32 (4209)

2002-02-07 10:55:32# 127. lþ. 72.94 fundur 318#B stjórnsýsla samgönguráðherra í máli læknis Flugmálastjórnar# (umræður utan dagskrár), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 127. lþ.

[10:55]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Flugöryggismál eru grafalvarleg mál og sá málaflokkur verður að vera yfir allan vafa hafinn. Sá ófriður sem ríkt hefur um þann málaflokk á síðustu vikum, mánuðum og raunar missirum og við ræðum nú hefur ekki orðið til í þessum sölum. Hann hefur ekki til orðið af flokkspólitískum ástæðum heldur hafa þar tekist á fagaðilar og því miður hefur hæstv. samgrh. lent í þeim stormi miðjum. Það er afar óheppilegt og er rétt að undirstrika það enn og aftur vegna orða hv. síðasta ræðumanns að þetta mál hefur ekki orðið til í flokkspólitískum þrætum eins og stundum vill verða. Málið er alvarlegra en svo að menn skiptist í flokka eftir því hvernig á flugöryggismálum er tekið. Það vil ég undirstrika klárlega.

Ég vil einnig hafa það á hreinu að hæstv. samgrh., sem ég þekki af áralöngu samstarfi sem heiðarlegan og traustan í alla staði, hefur af einhverjum ástæðum lent í þeirri stöðu að lenda í miðjum storminum, lenda í málinu miðju í stað þess að vera sá mannasættir sem þörf er á í því faglega máli sem hér um ræðir. Ég ætla ekki að leita að ástæðum fyrir því. Mér dettur þó í hug að leita megi í hans vondu ráðgjöfum.

Ég held hins vegar að þessi langvarandi umræða, eins mikilvæg og hún er en jafnframt óheppileg því að umfram allt erum við að ræða um öryggi flugfarþega, ekki um einstaklinga sem hafa einhverra þröngra hagsmuna að gæta, ég tel að mál sé að linni og telji ráðherra þörf á að leita liðsinnis Alþingis til þess að breyta lögum til að gera stjórnsýsluna skýrari, gleggri og með þeim hætti að fólk hafi trú og traust á, þá hygg ég að hið háa Alþingi sé reiðubúið að koma að því máli þegar kallið kemur.