Stjórnsýsla samgönguráðherra í máli læknis Flugmálastjórnar

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 10:57:43 (4210)

2002-02-07 10:57:43# 127. lþ. 72.94 fundur 318#B stjórnsýsla samgönguráðherra í máli læknis Flugmálastjórnar# (umræður utan dagskrár), Flm. LB
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 127. lþ.

[10:57]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Það er orðin dálítil lenska í sölum Alþingis að þegar ráðherrar eiga í einhverjum vandræðum með málflutning sinn, þá saka þeir andmælandann um að vera ómerkilegan, fara með ósatt mál o.s.frv. en aldrei skal koma dæmi um slíkt, aldrei skulu menn neitt rökstyðja slíkar fullyrðingar. Þetta hafa fleiri hæstv. ráðherrar gert. Þetta gerði hæstv. landbrh. ekki fyrir löngu. Hæstv. forsrh. hefur leikið það jafnan að snúa út úr umræðum manna og bera þá hinum ýmsu sökum um að þeir séu ekki að flytja mál sitt sem skyldi. Ég held að það sé allt í lagi að menn setji fram fullyrðingar af þessu tagi en menn skulu þá færa rök fyrir máli sínu, annars er verið að snúa þessu upp á sjálfa sig.

Ég held, virðulegi forseti, að það sé dálítið erfitt fyrir hæstv. ráðherra að bera þá nefnd sem hann skipaði fyrir sig. Í fyrsta lagi vegna þess hvernig hún er skipuð. Hún er skipuð vönduðu fólki, um það er ekki deilt. Hins vegar liggja þarna ákveðnir hagsmunir sem gera það að verkum að nefndin er ekki nægjanlega trúverðug, því miður. Þarna er um það að ræða að formaður nefndarinnar er lögmaður Símans til langs tíma og hefur af því mikinn hag að handhafi eina hlutabréfsins í Símanum sé ekki þannig stemmdur að það fari gegn prívathagsmunum hans. (Gripið fram í: ... óheiðarlega.) Ég segi ekki að hann hafi unnið óheiðarlega. (Gripið fram í.) Ég segi hins vegar að nefndin sé ótrúverðug sökum þessa án þess að ég sé án nokkurn hátt að gera mennina þar ... (Gripið fram í.) að draga nokkuð úr þeirra ...

(Forseti (ÍGP): Má ég biðja hv. þingmenn um að gefa hljóð í salnum.)

Ég vil halda þessu ... (SJS: ... sjálfstæðismenn, þeir mega tala.) --- Ég held að hæstv. forseti verði að gefa mér einhvern viðbótartíma. (SvH: ... nýta ...) Ég held að það verði að halda þessu til haga og þetta er sú sama nefnd sem er skipuð af samgrh. sjálfum til að fjalla um hans eigin verk. Ég held að vinnubrögð af þessu tagi séu ekki til neins sóma fyrir neinn. Ég held að hæstv. ráðherra geti ekki skákað í því skjólinu að hans eigin nefnd hafi gert það að verkum og hreinsað hann af því sem menn hafa sett fram, rökstutt að fullu, og ég skora á hæstv. ráðherra að rökstyðja fullyrðingar sínar um ómerkilegan og ósannan málflutning.