Stjórnsýsla samgönguráðherra í máli læknis Flugmálastjórnar

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 11:00:25 (4211)

2002-02-07 11:00:25# 127. lþ. 72.94 fundur 318#B stjórnsýsla samgönguráðherra í máli læknis Flugmálastjórnar# (umræður utan dagskrár), samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 127. lþ.

[11:00]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu sem er afar mikilvæg, eins og ég vék að, til þess að upplýsa þetta mál og ekki síst fyrir þá sem hafa tekið þátt í umræðunni af hálfu stjórnarandstöðunnar.

Hv. málshefjandi Lúðvík Bergvinsson kvartaði undan því að ég gerði athugasemd við málflutning hans. Hann hélt því fram að ég, samgrh., hefði lekið upplýsingum úr skýrslunni til fjölmiðla. Hvaðan hefur þingmaðurinn þetta?

Það mun vera þannig að blaðamaður Dagblaðsins, svo ég upplýsi það, talaði við landlækni og landlæknir gerði að einhverju leyti grein fyrir því sem varð niðurstaða skýrslunnar. Ef hv. þm. hefur þetta innan úr Dagblaðinu þá ætti hann að fá nánari upplýsingar um það.

Í öðru lagi segir hv. þm. að samgrh. hafi tekið þetta mál upp hjá sjálfum sér. Þvílíkur málflutningur! Hvað tók samgrh. upp hjá sjálfum sér? Bjó hann til þessa deilu á milli Flugmálastjórnar og Félags ísl. atvinnuflugmanna? Bjó samgrh. til þá deilu? Tók samgrh. það upp hjá sjálfum sér? Hvers konar málflutningur er þetta? En hann er algerlega í samræmi við þann málflutning sem tíðkast hjá hv. þm.

Ég vil leggja á það áherslu að það er afar mikilvægt að við náum sátt og sönsum í þessum máli. En það verður ekki gert með aðstoð stjórnarandstöðunnar, í það minnsta ekki þess sem hóf þessa umræðu hér. Nefndin var skipuð traustum og trúverðugum mönnum. Það að hv. málshefjandi Lúðvík Bergvinsson skuli veitast að fjarstöddum sómamönnum eins og landlækni og tveimur hæstaréttarlögmönnum sem störfuðu í þessari nefnd er (Forseti hringir.) algerlega óviðurkvæmilegt og utan allrar venju hér í þinginu, hæstv. forseti.

Að lokum, ef hv. þm. vill taka þátt í því að bæta þessi mál þá á hann að hætta að stimpast við og (Forseti hringir.) reyna að koma í veg fyrir að við breytum loftferðalögunum til þess að styrkja þessi mál.

(Forseti (ÍGP): Ég vil minna hæstv. ráðherra og hv. þingmenn á að virða tímamörk.)