Hafnalög

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 11:39:13 (4217)

2002-02-07 11:39:13# 127. lþ. 72.6 fundur 386. mál: #A hafnalög# (heildarlög) frv., ÞKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 127. lþ.

[11:39]

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég ítreka enn að ég tel mjög mikilvægt að hafnirnar verði reknar í virðisaukaskattsskyldu umhverfi. Það gefur möguleika á ýmiss konar hagræðingu fyrir hafnirnar þar sem virðisaukaskattsleysið, ef svo má að orði komast, hefur oft og tíðum hamlað. Ég þekki ákveðin dæmi um að sumar hafnir hafi m.a. guggnað á því að fela öðrum, t.d. fiskmörkuðum, að sjá um daglega vinnu við hafnirnar vegna þess að hafnirnar þurfa þá að greiða virðisaukaskatt sem þær síðan fá ekki endurgreiddan. Það er mikilvægt atriði.

Ég á reyndar eftir að kanna þetta enn frekar en mér skilst að almennt tíðkist ekki í höfnum heimsins að innheimta virðisaukaskatt af erlendum skipum og þjónustu og ýmsum varningi sem erlend skip kaupa í viðkomandi landi. Þetta er atriði sem við verðum að skoða vel eins og hæstv. ráðherra benti á, einnig með tilliti til þess hvort önnur þjónusta erlend þurfi þá líka að greiða virðisaukaskatt af þessari þjónustu.

Ég ítreka enn og aftur að ég tel þetta mikilsvert mál. Það verður áhugavert að fjalla um það í samgn. og ég hlakka til að takast á við þá vinnu sem fram undan er.