Hafnalög

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 11:53:02 (4223)

2002-02-07 11:53:02# 127. lþ. 72.6 fundur 386. mál: #A hafnalög# (heildarlög) frv., JB
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 127. lþ.

[11:53]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Þetta frv. til nýrra hafnalaga sem hæstv. samgrh. hefur mælt fyrir felur í sér töluvert miklar breytingar á því sem nú gildir varðandi eignar- og rekstrarform hafna vítt og breitt um landið og eins möguleika þeirra. Að sjálfsögðu er ýmislegt í þessu frv. jákvætt og nauðsynlegt, t.d. að í reglugerð skuli kveða nánar á um einstakar hafnir, um öryggismál, mengunarmál og aðbúnað. Hafnir búa við staðbundnar aðstæður og er mikilvægt að þau mál séu sem best og öruggust.

Að öðru leyti, eins og hæstv. ráðherra gerði rækilega grein fyrir, er meginmálið að veita heimild til breytinga á rekstrarformi. Nú er það svo að á Alþingi hafa einnig verið kynntar hugmyndir og áætlanir um að vinna að samræmdri samgönguáætlun fyrir landið allt þar sem saman fari ítarleg skoðun og samtenging á samgöngumannvirkjum og nýtingu þeirra, hvort sem eru þjóðvegir eða vegir um land allt, flug, flugvellir eða hafnir og hafnarmannvirki og flutningar meðfram ströndum landsins.

Mér finnst það verklag gott og rétt að skoða og reyna að gera stefnumörkun hvað þetta varðar í heild sinni til framtíðar. En sú stefnumörkun liggur ekki fyrir. Enn liggur ekkert fyrir um samræmd samgöngumál í heild, á sjó, landi og í lofti. Þess vegna er þetta frv. til laga um hafnalög dinglandi í lausu lofti. Áður en maður fer að breyta lögum verður að byrja á að reyna að skilgreina hvert maður ætlar að sé framtíðarhlutverk viðkomandi mannvirkja og viðkomandi þjónustu, eins og hafna landsins, en ekki gera grundvallarbreytingar þar á, bæði á stöðu, rekstri og þátttöku ríkis og almennings í að bera ábyrgð á hlutverki þeirra. Það á fyrst að skilgreina framtíðarhlutverk og stöðu hafnanna innan þeirrar samræmdu samgönguáætlunar sem hefur verið boðið og fara því næst í breytingar á hafnalögum en ekki öfugt. Þess vegna, herra forseti, finnst mér að þarna sé farið að öfugum enda og ekki í samræmi við það sem boðað hefur verið, þ.e. fyrst í vinnu við samræmda samgönguáætlun og svo aðlögun samgöngumannvirkja að henni, og eignarforms, rekstrar og hlutverks samkvæmt því.

Rauði þráðurinn í gegnum þetta frv. hæstv. ráðherra samgöngumála er breyting á rekstrarformi hafnanna og eignarformi. Hingað til hefur höfnin verið hluti af þeirri almannaþjónustu, almenningsmannvirkjum, sem ætlað hefur verið að standa undir mannlífi, atvinnulífi og þjónustu á viðkomandi svæðum. Menn hafa í sjálfu sér ekki verið að velta því fyrir sér hvort betra væri að koma því í eignarform sem hægt væri að markaðssetja og selja. Hér er lagt til að heimila höfnum --- reyndar að búa undir það að í mörgum tilvikum verði óhjákvæmilegt annað --- að þær verði að hlutafélögum. Hlutafélög stofnar maður til að geta selt hluti í þeim. Annars er maður ekki að stofna hlutafélag nema til þess að geta selt. (Gripið fram í.) Ja, málið er þess eðlis að hlutafélög eru til að selja þau, selja hlutina í þeim eða verðleggja þau með þeim hætti.

Þetta kemur kannski ekkert á óvart í miðað við þá stefnu sem birtist hjá hæstv. ríkisstjórn. Nú um daginn var lagt fram frv. til laga um að hlutafélagavæða vatnsveitur sveitarfélaga þannig að kaldavatnsveiturnar ættu að verða hlutafélög sem líka væri þess vegna hægt að setja á markað og reikna sér arð af. Kalda vatnið höfum við hingað til talið eina af frumþörfunum, samfélagsþörf og samfélagslega skyldu að sjá okkur fyrir sem ekki ætti að verða að markaðsvöru. Þetta frv. barst hér inn um daginn.

[12:00]

Nú kemur frv. um að einkavæða og gera mögulegt að selja hafnir án þess að í rauninni sé búið að skilgreina hver staða þeirra eigi að vera í væntanlegri samræmdri samgönguáætlun. Mér finnst að einkavæðingaráhugi ríkisstjórnarinnar fari þarna töluvert fram úr sjálfum sér, það verð ég að segja, herra forseti. Ég held að rétt sé að doka þarna við og búa sem fyrst til stefnuna, skilgreina markmiðin og þörfina, áður en menn fara að einkavæða samgöngumannvirkin eins og hér er lagt til. Það hefur ekki held ég hrjáð hafnir á Vestfjörðum, Norðurlandi eða Austurlandi að geta ekki verið í samkeppni hver við aðra um að ná í landanir úr fiskiskipum. Miklu frekar hefur vandi þessara sveitarfélaga og slíkra aðila verið sá að fá fiskiskip til að landa. Og hagur þeirra að fara að ná þeim af næstu höfn í næsta firði, það er í sjálfu sér ekkert markmið finnst mér, eins og hér var látið að liggja, að það opnaði möguleikana með að koma á virkri samkeppni þannig að hægt væri með þeim hætti að etja saman nágrannahöfnum. Mér finnst slík nálgun og slíkur hugsunarháttur gagnvart höfnum vítt og breitt um landið ekki vera fýsilegur og ég er honum andvígur.

Ríkið er líka, eins og hér er lagt til, að draga sig út úr ábyrgð á rekstri á höfnunum vítt og breitt um landið. Hingað til hefur verið viss trygging í samræmdri gjaldskrá gagnvart rekstri þessara hafna þannig að hafnirnar þyrftu ekki að hugsa um það fyrst og fremst hvernig þær geti náð bátnum af höfninni í næsta firði, heldur að einbeita sér að því að byggja upp eigin styrk (Gripið fram í: Til að ná bátnum.) Já, núna. Þetta lagafrv. kveður á um það einmitt, að opna það. Það á að beita eigin styrk til þess að ná bátnum úr næstu höfn til að landa.

Vissulega höfum við upplifað það að fiskiskipin eru farin að landa í stórum stíl, þó að þau séu gerð út frá Akureyri eða höfn norðan lands, á suðvesturhorninu og það er vandamál sem þyrfti að taka á. Það er hæstv. ráðherra að koma fram með tillögur um það en ég tel að þær tillögur sem hér eru séu ekki til þess fallnar. Jú, það má vel vera að þær stuðli að því að hægt verði að koma á samkeppni á milli Reykjavíkurhafnar og Hafnarfjarðarhafnar, það má svo sem vel vera. En hvorug þeirra hafna stendur í neinum sérstökum vandræðum, hvorki í rekstri né umsvifum. En hvort hafnirnar á Vestfjörðum geta farið að keppa þar hver við aðra eftir fjörðum finnst mér ekki vera markmið, eins og hér er verið að leggja upp með.

Þá er gert ráð fyrir, einmitt í krafti þessara stefnumarkana, að ríkið dragi sig út úr ábyrgð og þátttöku á fjármögnun og stofnkostnaði hafna vítt og breitt um landið í áföngum án þess að búið sé að skilgreina hlutverk þeirra í samræmdri samgönguáætlun sem hæstv. ráðherra hefur boðað. Og það finnst mér vera mjög öfugt að farið.

Af því að hæstv. ráðherra vitnaði hér til að þegar hefðu borist umsagnir um nefndina eða ákveðin nefndarstörf um undirbúning þessara nýju hafnalaga, bæði frá Samkeppnisstofnun og fleiri aðilum, þá langar mig til að spyrja hvort hæstv. ráðherra hafi leitað álits byggðamálaráðuneytisins og Byggðastofnunar, en samkvæmt viljayfirlýsingu og tilmælum í lögum og reglugerðum um Byggðastofnun er leitað umsagna um frv. að lögum, sem munu væntanlega hafa veruleg áhrif eða geta haft veruleg áhrif á byggð og búsetu vítt um landið, áður en þau eru lögð fram.

Í yfirlýsingu sem liggur fyrir á milli ríkisstjórnarinnar og Sambands ísl. sveitarfélaga er gert ráð fyrir að lög og reglur og önnur stjórnvaldsfyrirmæli, sem hafa áhrif á fjárhag sveitarfélaga, séu kostnaðarmetin og metin hvað varðar framtíðaráhrif á stöðu og rekstur sveitarfélaga áður en þau eru lögð fram með hliðstæðum hætti og fjmrn. kostnaðarmetur frumvörp fyrir ríkissjóð. Þessar hugmyndir hafa verið sendar Sambandi ísl. sveitarfélaga til skoðunar samanber samstarfsyfirlýsingu sem þessir aðilar hafa gert sín á milli. Ég vil, með leyfi forseta, vitna til yfirlýsingar sem gerð var í Reykjavík 28. des. á milli félmrh. og fjmrh. og Sambands ísl. sveitarfélaga. Í 8. lið kemur fram:

,,... að hafin verði vinna að undirbúningi reglna um kostnaðarmat lagafrumvarpa og annarra stjórnvaldsfyrirmæla sem hafa áhrif á fjárhag sveitarfélaga, samanber skýrslu nefndar um kostnaðarmat dags. í október 2001.``

Í því samkomulagi er gert ráð fyrir að fram fari kostnaðarmat á slíkum frv. áður en þau eru lögð fram, svona veigamiklum frv. eins og hér er um að ræða.

Ég vil vekja athygli á því að sá sem hér stendur hefur ásamt öðrum þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs lagt fram till. til þál. um strandsiglingar, þar sem lagt er til að könnuð verði þróun, staða og æskileg framtíðarhlutdeild strandsiglinga í vöruflutninga- og samgöngukerfi landsins. Strandsiglingar hafa á undanförnum árum dregist saman og eru nánast orðnar hverfandi þáttur í flutningakerfi landsmanna, þ.e. reglulegar strandferðir og flutningar meðfram ströndum landsins. Þó er ljóst að bæði út frá umhverfislegu og mengunarlegu sjónarmiði er þetta óheppileg þróun. Einnig er óhagkvæmt að færa svona mikla þungaflutninga eins og raun ber vitni yfir á þjóðvegi landsins, þjóðvegi sem alls ekki eru í rauninni gerðir til þess að bera þá miklu þungaflutninga sem núna fara um svæðin. Við upplifum það að flutningabílar í akstri við slæm skilyrði á vegum sem alls ekki bera slíka flutninga, hvorki öryggisins vegna né burðarlega, lenda í vandræðum auk þess sem slíkir flutningar geta verið hættulegir eða truflað aðra umferð eftir vegunum, vegum sem alls ekki eru til þess hæfir.

Ég tel, herra forseti, að það ætti einmitt að kanna miklu frekar hvernig á að efla strandsiglingar og efla notkun hafnanna í kringum landið og það eigi að gerast fyrst áður en lög eru sett um það hvernig megi í rauninni opna á frjálsa samkeppni varðandi rekstur á einstökum höfnum og fara út í þessa gallhörðu einkavæðingu og einkavæðingaráform sem þetta frv. ber með sér gagnvart rekstri á höfnum í landinu. Ég tel vera byrjað á röngum enda. Fyrst á að skilgreina þarfirnar, skilgreina stöðu hafnanna í almenningssamgöngukerfinu, í flutningakerfi landsins, það eigi að gera fyrst en ekki að ráðast í það núna að breyta lögunum með þeim hætti að hægt sé að fara að einkavæða þær, gera þær að hlutafélögum, þannig að hægt sé að selja þær eða kaupa þær út úr rekstri. Það er ekki það sem sjávarbyggðir og verslunarstaðir vítt og breitt um landið hafa þörf fyrir. Miklu frekar hina sýnina, herra forseti, hvernig megi efla hafnirnar á eigin forsendum og þá starfsemi sem þar er, heldur en að þær fari að keppa við nágranna sína og reyna að troða af þeim skóinn, eins og þessi lög opna fyrir.

Herra forseti. Frumvarpið kemur til meðferðar í hv. samgn. og ég sit í þeirri nefnd. Þar verður þá hægt að fara í gegnum þetta nánar. En ég ítreka að ég vara við þeim tóni og þeirri meiningu sem hér er verið að leggja til, þ.e. að opna fyrir aukna einkavæðingu í rekstri samgöngumannvirkja vítt og breitt um landið.