Hafnalög

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 12:17:08 (4227)

2002-02-07 12:17:08# 127. lþ. 72.6 fundur 386. mál: #A hafnalög# (heildarlög) frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 127. lþ.

[12:17]

Jón Bjarnason (andsvar):

Virðulegi forseti. Ekki veit ég í hvaða tíma hæstv. ráðherra er þegar hann dregur borgarstjórnarmál Reykjavíkur inn á borðið, án þess að vera betur að sér í sögunni en svo, en Vinstri grænir eiga enga aðild að þeirri borgarstjórn sem nú situr. (Gripið fram í: Jú, reyndar Árna.) (Samgrh.: Árni Þór Sigurðsson er einn höfunda að þessu frv.) Já, Árni Þór er ábyggilega hinn besti maður og vinnur verk sín vel. Ég vona það. En ég sé ekki hvað það hjálpar hæstv. ráðherra að draga bæjarstjórnarmál hér inn með þessum hætti. Hann víkur sér undan því að svara því sem málið fjallar um, sem er ekkert sérstaklega mannalegt af hæstv. ráðherra.

Málið snýst um að það er verið að opna fyrir einkavæðingu á höfnum vítt og breitt um landið. Vandi hafnanna vítt og breitt um landið snýst ekki um möguleika til að keppa við höfnina í næsta firði. Vandinn snýst ekki um það, herra forseti. Því miður virðist eina leiðin sem hæstv. ríkisstjórn sér vera einkavæðing og aftur einkavæðing. Hún bítur þannig í skottið á sjálfri sér.