Hafnalög

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 12:29:58 (4234)

2002-02-07 12:29:58# 127. lþ. 72.6 fundur 386. mál: #A hafnalög# (heildarlög) frv., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 127. lþ.

[12:29]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Vandinn í gegnum árin hefur kannski verið óheppilegar fjárfestingar í of mörgum höfnum. Nú eru breyttir tímar. Þetta var eðlilegt þegar fiskibátar og útgerðir röðuðu sér niður sem næst miðunum. Nú er þetta orðið gjörbreytt umhverfi.

Varðandi það sem hv. þm. kom inn á, um vanda fiskiskipa og kvótann. Jú, eitt af þeim skrefum sem hér voru stigin --- menn voru allir sammála um að smærri bátarnir tryggðu byggðarlögin hér og þar --- var að Alþingi gekk svo langt að heimila framsal á aflaheimild eða kvóta hinna minni fiskibáta. Þess vegna er eðlilegt að þetta fari í þennan farveg.

Ég er sannfærður um að þetta frv. til hafnalaga sem hér liggur fyrir muni enda með að verða samþykkt, muni hljóta samþykki okkar beggja þegar við höfum farið yfir málið í hv. samgn. þar sem við eigum sæti.