Hafnalög

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 12:32:22 (4236)

2002-02-07 12:32:22# 127. lþ. 72.6 fundur 386. mál: #A hafnalög# (heildarlög) frv., EKG
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 127. lþ.

[12:32]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Frv. sem hér er til umræðu á rót sína að rekja til allmargra samþykkta Hafnasambands sveitarfélaga. Ef við lesum þessar samþykktir nokkur ár aftur í tímann þá kemur ævinlega hið sama fram, að Hafnasamband sveitarfélaga, fulltrúar þeirra aðila sem sjá um að reka hafnirnar og eru í rauninni eigendur hafnanna á landsbyggðinni og í kringum landið, hafa séð að ríkjandi fyrirkomulag er óskaplega þungt í vöfum og erfitt. Eins og menn vita samþykkjum við hér hafnaáætlanir til fjögurra ára. Alþingi staðfestir síðan fjárveitingar til þessara hafna með fjárlögum sínum á hverju ári og þeim ákvörðunum sem Alþingi tekur getur enginn annar breytt.

Nú þekkjum við það að í mannheimum breytast hlutirnir oftar en einu sinni á ári og aðstæður breytast stundum hratt, ekki síst í sjávarútvegi. Þá þurfa menn að bregðast við. Og þá byrjar þessi einkennilega þrautaganga milli manna, frá samgrn., Siglingastofnun, samgn. Alþingis og Alþingi og samþykki þessara aðila allra þarf að liggja fyrir áður en menn geta breytt stafkrók í ákvörðunum sem eru staðfestar á Alþingi a.m.k. einu sinni á ári og innsiglaðar síðan í hafnaáætlun eftir að okkur tókst að setja þær niður á blað.

Því var ekki að furða þó að Hafnasamband sveitarfélaga segði: Þetta getur ekki gengið svona. Þetta verður að breytast. Við verðum að fá meira sjálfræði í okkar málum. Þess vegna óskaði Hafnasamband sveitarfélaga á fundi eftir fund eftir því að ríkið drægi sig meira út úr þessum ákvörðunum og að ákvarðanirnar yrðu meira á sviði sveitarstjórnarmannanna sem þekkja best til og eru þeir aðilar sem reka hafnirnar og eru í raun fulltrúar eigenda hafnanna, sem eru sveitarfélögin. Þess vegna er mjög eðlilegt að menn séu að stíga skrefið í þá átt að hverfa frá þessari gríðarlega miklu miðstýringu sem hefur átt sér stað og hefur leitt í ýmsum tilvikum til ýmissa mistaka eins og við þekkjum, til þess að eigendur hafnanna, þeir sem raunverulega eiga við að búa, hafi meira um málið að segja. Það er sú grundvallarhugmynd sem er á bak við þetta frv.

Síðan hefur það gerst til viðbótar að leitað hefur verið eftir áliti Samkeppnisstofnunar á því hvort meginmarkmið gildandi hafnalaga séu í samræmi við þann anda sem svífur yfir vötnum í samkeppnislögunum sjálfum. Niðurstaða Samkeppnisstofnunar er mjög eindregin. Hún er einfaldlega sú að augljóst sé að gildandi hafnalög séu ekki í samræmi við gildandi samkeppnislög og ekki í samræmi við þann anda sem er í gildandi samkeppnislögum. Að vísu er það þannig, eins og við alþingismenn þekkjum, að sérlög á borð við hafnalög taka samkeppnislögunum fram í þeim skilningi að það er ekki verið að brjóta samkeppnislög með hafnalögunum. Það geta menn auðvitað ekki sagt, heldur eru menn einfaldlega að benda á að það sem býr að baki hugsun okkar í sambandi við samkeppnislögin sé ekki sú hugsun sem við erum með í hafnalögunum, þar á meðal sú ákvörðun að vera með eina gjaldskrá fyrir hafnirnar í landinu. Þetta sjáum við að er að gerast alls staðar í okkar þjóðfélagi, þ.e. að menn eru að hverfa frá því að hafa eina gjaldskrá og fyrir því eru skiljanleg rök, augljós rök.

Það sem einfaldlega hefur verið að gerast vegna þess að hafnirnar hafa verið svona njörvaðar niður, annars vegar með ákvörðunum ríkisvaldsins í gegnum samþykktir Alþingis og vegna þess veruleika að Alþingi, við hér tökum allar stórar og smáar ákvarðanir í þessum efnum um fjárfestingar hafnanna, og síðan vegna þeirrar staðreyndar að hafnirnar eru bundnar af einni gjaldskrá, er að til hefur orðið annars konar samkeppni, samkeppni sem hefur verið að leika þessar hafnir grátt m.a. vegna þess að lögin, gildandi lög, ramminn utan um hafnirnar í landinu hefur ekkert verið að endurspegla þennan veruleika. Hafnirnar hafa því staðið þarna eins og berstrípaðar í þessari baráttu og ekki getað rönd við reist. Það er engin löggjöf í kringum þessar hafnir sem gerir þeim kleift að bregðast við breytingunum.

Menn hafa verið að velta fyrir sér samkeppni milli hafna. Við skulum ekki gleyma því að samkeppnin er ekki síður við aðrar flutningaleiðir og annan flutningsmáta, og þar hefur samkeppnin verið að birtast okkur. Vöruflutningarnir hafa færst frá höfnunum upp á vegina, eins og við þekkjum, og það hefur því miður orðið þannig að vöruhöfnum í landinu fækkar ár frá ári með þeim afleiðingum sem við öll þekkjum fyrir tekjustofna þessara hafna.

Virðulegi forseti. Þess vegna held ég að þær breytingar sem menn eru núna að sjá í þessu og munu hafa áhrif á hafnirnar séu kannski breytingar sem að langmestu leyti eru komnar fram. Þær breytingar hafa verið kallaðar fram vegna t.d. taxtaákvarðana skipafélaganna. Sú ákvörðun skipafélaganna t.d. að hætta að greiða framhaldsflutninginn hefur haft þau áhrif að menn eru í stórum stíl að hætta að landa í sínum gömlu heimahöfnum og eru farnir að landa á höfuðborgarsvæðinu. Það er mikill hvati hjá þessum skipafélögum að fá menn til þess að landa í útflutningshöfnunum og við þekkjum það að þessi samkeppni er brostin á. Hafnirnar hafa líka ýmsar leiðir til þess að draga að sér viðskipti og gera það án þess að í sjálfu sér sé kominn sá samkeppnislegi rammi sem þarf að vera til staðar svo að samkeppnin sé sanngjörn.

Menn geta gert það með því að bjóða fram annars konar þjónustu og það er mál númer tvö sem líka er verið að taka á í þessu frv. hérna, þ.e. að auðvitað verða að gilda einhver lög um það, einhverjar reglur um það hvernig menn geta beitt styrk sínum í samkeppninni. Er t.d. eðlilegt að höfn sem fær ríkisstyrki til framkvæmda geti síðan farið að bjóða fram þjónustu sem einkaaðilar geta sinnt, lyftaraþjónustu, afgreiðslu á vatni og rafmagni eða eitthvað annað sem kostar vinnuafl og einstaklingar gætu kannski viljað sinna, ungir dugmiklir menn sem vilja t.d. hasla sér völl vegna þess að þeir vilja finna viðspyrnu sinna krafta? Eiga þeir þá að fara að etja kappi við sveitarfélög sem eru ríkistyrkt til framkvæmda sinna? Auðvitað gengur það ekki. Þess vegna er það nákvæmlega niðurnjörvað, skrifað inn í lagatextann, frumvarpstextann, hvernig menn mega beita afli sínu í þessari samkeppni.

Virðulegi forseti. Við skulum átta okkur á því að tekjur hafnanna eru í dag líkt og takmörkuð auðlind, því tekjur hafnanna eru frekar að dragast saman. Það er ekki þannig að við sjáum í hendi okkar á þessari stundu mikla möguleika á því að auka tekjur hafnanna. Ég hef svo sem ekki á hraðbergi en ég veit að heildartekjur íslenskra hafna hafa verið að dragast saman núna ár frá ári. Á sama tíma erum við að taka ákvarðanir um það á hverju einasta ári núna, og höfum verið að gera það árum saman, að fjármagna eða leggja í fjárfestingar í þessum höfnum upp á 800 millj. kr. að jafnaði á síðasta áratug og erum núna held ég, ef ég man það rétt, á þessu fjárlagaári með fjárfestingar upp á 1,2 milljarða kr., á sama tíma og tekjurnar eru að dragast saman. Við sjáum í hendi okkar að þetta er ekki það viturlegasta sem við getum gert. Þetta er ekki það viturlegasta sem við getum gert með fjármagn sem við viljum kannski veita til uppbyggingar innviða þjóðfélags okkar, t.d. til vega, annarra samgöngubóta, til framkvæmda á landsbyggðinni, til aðgerða á landsbyggðinni. Þetta er ekki það sem mesta þörfin er á.

Það sem er að gerast er bara eðlilegt, þ.e. að þegar menn eiga þess kost að fá fjármagn af þessu taginu þá sækja þeir í þetta. Eins og staðan er í dag og veruleikinn er í dag þá er það bara staðreynd að viðbótarfjárfesting í höfnunum skilar þjóðfélagi okkar ekki viðbótartekjum. Hún leiðir væntanlega hins vegar til þess að það verður einhver styrkleikabreyting milli hafna. Ein höfn getur farið að bjóða aðeins betri þjónustu og dregið þá að sér aðeins meiri afla, kannski aðeins meiri tekjur, á sama tíma og önnur missa hann út úr höndunum á sér. Þetta er það sem við erum að sjá.

Í þriðja lagi vil ég nefna að það sem liggur líka til grundvallar þessu frv. er hugsun sem fyrir löngu er komin inn í okkar þjóðfélagi. Hún er sú að ekkert óeðlilegt sé að þeir notendur, þeir neytendur, það fólk, þau fyrirtæki sem nýta sér þjónustu greiði eitthvað fyrir hana. Það er einmitt það sem við gerum t.d. að öðru leyti í samgöngunum.

Hver borgar fjárfestinguna í vegunum? Umferðin. Hver borgar fjárfestinguna í flugvöllunum? Farþegarnir. Það eru flugvallargjöldin, bensíngjöldin, þungaskatturinn o.s.frv. Og við teljum eðlilegt að við stöndum undir þessum fjárfestingum. Við borgum sérstök gjöld sem við nýtum til þess að fjármagna flugvellina okkar, vegina okkar. En við höfum hins vegar talið að ekki væru efni til þess að láta hafnirnar standa að fullu undir þessum fjárfestingum og þess vegna höfum við gripið til þessa úrræðis.

Ég tel ekkert óeðlilegt í sjálfu sér að við stígum skref í þá átt, eins og hérna er verið að leggja til, að atvinnulífið og þeir sem nýti hafnirnar greiði það í meiri mæli en núna. Ég tel það ekkert óeðlilega hugsun nema síður sé. Ég vil hins vegar segja að ég tel nauðsynlegt, og vil beina því til hv. samgn., að hún skoði aðeins þróunina sem orðið hefur frá því að nál. sem liggur til grundvallar þessu frv. var skilað --- það var í lok árs 1999, að mig minnir --- að menn skoði aðeins betur þá þróun sem hefur orðið síðan.

Mér er mætavel ljóst að sú þróun hefur orðið örari en mann óraði fyrir. Það er ljóst t.d. að stórar hafnir sem á þeim tíma, á árinu 1999, voru í sæmilegum færum hafa verið að missa tekjur. Ástæðan er ekki sú að lögum hafi verið breytt. Ástæðan er ekki sú að menn hafi haft einhverja hugmynd um að lögum yrði breytt. Ástæðan er bara veruleikinn, samkeppnin, sú staða að vöruinnflutningurinn og útflutningurinn hefur safnast á færri hafnir og síðan auðvitað sú staðreynd að þarfir fólks á landsbyggðinni hafa verið þær að fólk hefur viljað fá örari flutning á vörum og þjónustu. Sá veruleiki er horfinn sem við bjuggum við og vorum tiltölulega sátt við fyrir svona fimm, tíu, fimmtán árum, að skipið kæmi einu sinni í viku og stundum ekki einu sinni það og að síðan reyndu menn að bjarga sér eftir föngum með það sem á þyrfti að halda með bílunum sem kæmu þá tvisvar, þrisvar í viku. Núna fara inn á öll helstu svæði bílar nokkrum sinnum á dag og menn telja það lágmarkið sem hægt sé að búa við.

Þetta hefur orðið til þess að hafnir hafa verið að missa tekjurnar og það er þess vegna sem við þurfum að bregðast við. Það er þess vegna sem við þurfum að búa hafnirnar þeim vopnum sem þær þurfa til að þær geti brugðist við nógu hratt, til þess að þær verði hreinlega ekki undir í samkeppni, ekki samkeppni endilega á milli hafna heldur við annan flutningsmáta.