Hafnalög

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 12:47:59 (4239)

2002-02-07 12:47:59# 127. lþ. 72.6 fundur 386. mál: #A hafnalög# (heildarlög) frv., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 127. lþ.

[12:47]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Þessi fyrirspurn mín er að gefnu tilefni. Við erum að ræða um hagræðingu í rekstri hafna, jafnvel fækkun hafna og samkeppni hafna. Á sama tíma er nýbyggð höfn í Kópavogi sem ætlar sér í beina samkeppni við Reykjavík og Hafnarfjörð og aðrar hafnir og ekkert óeðlilegt við það í sjálfu sér. En ég held að ég fari með rétt mál að allar þær framkvæmdir eru utan ríkisstyrkja og án afskipta Siglingamálastofnunar, ef ég man rétt. Hér er því um algjört nýmæli að ræða, nýjar framkvæmdir með öðrum hætti en þekkst hefur. Eftir því sem ég best veit hefur Kópavogshöfn ekki þegið neitt ríkisfjárframlag, enda er hún ... (Gripið fram í.) ekki fengið réttara sagt. En þarna er sem sagt einkaframtakið, og líklega mun þetta frv. til hafnalaga sem við erum að ræða veita fleiri sveitarfélögum heimild og möguleika á að ráðast í slíkar framkvæmdir án afskipta ríkisvaldsins ef mönnum sýnist, samanber Kópavogshöfn.