Hafnalög

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 12:59:58 (4241)

2002-02-07 12:59:58# 127. lþ. 72.6 fundur 386. mál: #A hafnalög# (heildarlög) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 127. lþ.

[12:59]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Þessi umræða sem háð er í þinginu er um hafnaáætlun. Hv. þm. drap á mál sem er skylt því hvernig menn nýta þá fjárfestingu sem er í höfnum og ég ætla að fjalla örlítið um það.

Hv. þm. gerði að umræðuefni þá þróun sem birtist í því að í vaxandi mæli er afli sem landað er úti á landi fluttur hingað til höfuðborgarinnar til vinnslu eða útflutnings eftir atvikum með bílum. Þetta setur gríðarlegt álag á samgöngukerfið á landi, eykur slysahættu eins og menn vita og það hefur reyndar komið til umræðu hérna.

Ég tel að mjög æskilegt væri ef hægt væri að sporna gegn þeirri þróun og reyna að nýta sjóleiðirnar betur. Mig langaði þess vegna til að spyrja hv. þm. Hjálmar Árnason, sem vakti með þörfum hætti máls á þessu, hvort hann sjái einhverjar leiðir til þess. Telur hann t.d. að til greina komi að beita einhvers konar hvata í gegnum skattkerfið eða beita skattkerfinu á annan hátt til að ýta þeim flutningum aftur á hafið sem mundi bæði spara fyrir okkur skattborgarana í samgöngum á landi, mundi draga úr slysahættu og mundi auðvitað bæta miklu betur fjárfestinguna sem er gríðarleg í hafnarmannvirkjum?