Samningsbundnir gerðardómar

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 13:48:31 (4248)

2002-02-07 13:48:31# 127. lþ. 73.5 fundur 203. mál: #A samningsbundnir gerðardómar# (fullnusta erlendra gerðardóma) frv., Frsm. ÞKG
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 127. lþ.

[13:48]

Frsm. allshn. (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 729 í 203. máli, þ.e. nál. um frv. til laga um breyting á lögum um samningsbundna gerðardóma.

Lögin um samningsbundna gerðardóma geyma heildstæðar reglur um þá dóma, skipun þeirra, kröfur til gerðardómsmanna, reglur um málsmeðferð og aðfararhæfi þeirra.

Í lögunum segir að skilyrði aðfarar, frestir og framkvæmd þeirra fari eftir aðfararlögum. Að mörgu leyti má segja að þessi tilvísun sé ekki nægilega nákvæm þar sem ferli aðfararbeiðnar getur verið tvenns konar, annars vegar að beina kröfu beint til sýslumanns og hins vegar að leita fyrst til héraðsdómara eftir áritun.

Með þeirri breytingu sem frv. leggur til í 2. gr. eru í stað tilvísunar til aðfararlaga tekin af öll tvímæli og kveðið beint á um að um aðför gerðardóma gildi sömu reglur og um fullnustudóma uppkveðnum af íslenskum dómstólum og sáttir sem komist hafa á fyrir þeim.

Í 3. gr. frv. er á sama hátt tekinn af allur vafi um erlenda gerðardóma sem kveðnir eru upp í samræmi við þjóðréttarsamninga sem við erum aðilar að, þ.e. um að um aðför samkvæmt þeim gildi sömu reglur og um fullnustu erlendra dómsúrlausna.

Loks er í frv. kveðið á um heimildir dómara, ef mál er höfðað í héraði til ógildingar gerðardóms, til að ákveða samkvæmt kröfu að fresta réttaráhrifum og jafnframt að binda frestunina því að trygging sé lögð fram fyrir efndum kröfu.

Eftir að hafa farið yfir þetta mál mælir nefndin með því að frv. verði samþykkt óbreytt.