Áhugamannahnefaleikar

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 13:52:06 (4250)

2002-02-07 13:52:06# 127. lþ. 73.7 fundur 39. mál: #A áhugamannahnefaleikar# frv. 9/2002, Frsm. minni hluta SJóh
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 127. lþ.

[13:52]

Frsm. minni hluta menntmn. (Sigríður Jóhannesdóttir):

Hæstv. forseti. Illu heilli fóru nú leikar svo við 2. umr. málsins að samþykkt var að það gengi til 3. umr. og efnislega samþykkt af miklum meiri hluta þingmanna. Var greinilegt að margir höfðu haft ótrúleg sinnaskipti í málinu og hlýtur það að valda svolitlum heilabrotum hvernig hafi verið staðið að málum í ákveðnum flokkum. Það var sem sagt alveg skýr og greinileg niðurstaða í því máli.

Við nokkrir alþingismenn höfum mjög alvarlegar áhyggjur af þessu máli. Við teljum að það hafi verið í góðum farvegi á Íslandi að hnefaleikar voru bannaðir 1956, að vísu fyrir tilstilli sjálfstæðismanna. En það er ekki verra fyrir það. Þetta bann hefur verið haldið alveg núna fram á síðustu ár að nokkuð hefur, því miður, farið að gliðna á framkvæmdinni. Maður hefur heyrt að þeir sem reka hér áhugamannaklúbba um box og hafa farið mikinn, ekki síst í fjölmiðlum, hafi í rauninni haft stuðning yfirvalda til að fara sínu fram þó að bann gilti í landinu við iðkun íþróttarinnar.

En nú hníga öll rök til þess að þetta verði samþykkt við 3. umr. og verður erfitt að koma í veg fyrir það. Hins vegar situr eftir að slysatíðni í hnefaleikum og þá ekki síður áhugamannahnefaleikum er há miðað við aðrar íþróttir og eru hnefaleikar ein hættulegasta íþróttagreinin að mati breska læknafélagsins og það hefur komið mjög greinilega fram í umsögn læknafélaga að höfuðhlífar sem mikið hefur verið gert úr að verji keppendur í áhugamannahnefaleikum, séu engin vörn gagnvart þeim áverkum sem hættulegastir eru.

Ég minnist þess að fyrir tveim árum var viðtal í Morgunblaðinu við mann sem er reyndar látinn núna. Hann stundaði hnefaleika á Íslandi fram til 1956 og reyndar seinna hafði hann líka keppt á Keflavíkurflugvelli. Fyrir nokkrum árum fór hann að kenna sér alvarlegra veikinda og eftir að þau veikindi höfðu verið rannsökuð kom í ljós að hann var haldinn boxaraveiki vegna mjög mikilla höfuðhögga sem hann hafði fengið. Hann hafði þó nokkrum sinnum verið rotaður, eins og víst allir sem stunda keppni í hnefaleik, og þessi alvarlegu veikindi af völdum þessara höfuðáverka, sem núna munu hafa leitt til dauða, fóru að gera vart við sig meira en 20 árum síðar.

Þessi maður bað okkur alþingismenn að láta það ekki gerast að á Íslandi yrðu leyfðir atvinnumannahnefaleikar vegna þess að hann taldi sig hafa sannanir fyrir því, sem við höfum líka reyndar talið okkur hafa sem gerst höfum farið ofan í þessi mál bæði í hv. heilbr.- og trn. og menntmn., að ekki er síður hættulegt hvað varðar höfuðhögg --- það eru minni útvortis meiðsli á eyrum og höfuðleðri --- en það er ekki síður hættulegt að stunda áhugamannahnefaleika en aðra hnefaleika hvað varðar höfuðáverka.

Nú liggur fyrir þinginu brtt. frá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur, hv. þm. Katrínu Fjeldsted og þeirri sem hér stendur, þar sem lagt er til að þó það sem ég kalla ólukkuskref verði nú stigið, að leyfa keppni og æfingar í áhugamannahnefaleikum, þá förum við að tilmælum alþjóðasamtaka lækna og Evrópusamtaka lækna um að banna höfuðhögg í keppni og sýningu.

Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Við 3. gr. bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

Þó skulu þær reglur aldrei heimila högg í höfuð andstæðings. Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands skal einnig setja reglur um bann við höfuðhöggum í öðrum sambærilegum bardagaíþróttum.``

Hér hefur mjög verið vísað til þess í umræðunni að ósanngjarnt væri að banna áhugamannahnefaleika þegar aðrar íþróttagreinar sem leyfðu höfuðhögg væru leyfðar.

Það er líka smábreyting lögð til á fyrirsögn frv.:

,,Fyrirsögn frumvarpsins orðist svo: Frumvarp til laga um áhugamannahnefaleika og aðrar sambærilegar bardaga\-íþróttir.``

Ég verð að vona, þar til alla vega annað sannast, að hv. þm. séu tilbúnir til að hafa þó þennan vara á samkvæmt tilmælum Evrópusambands lækna og alþjóðasambands lækna og fjöldamargra læknasamtaka og banna höfuðhögg jafnvel þó að átökin eða bardaginn verði leyfður.