Þingsköp Alþingis

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 14:44:50 (4260)

2002-02-07 14:44:50# 127. lþ. 73.8 fundur 119. mál: #A þingsköp Alþingis# (rannsóknarvald þingnefnda) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 127. lþ.

[14:44]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég held að flest rök hafi komið fram sem mæla með samþykkt þessa máls þannig að ég kem hingað fyrst og fremst til að lýsa yfir stuðningi við þetta þingmál. Það gengur út á að styrkja Alþingi og efla það í eftirlitshlutverki sínu og þá til að efna til rannsókna, hvort sem um er að ræða á framkvæmd laga, meðferð opinberra fjármuna eða öðrum mikilvægum málum sem varða almenning.

[14:45]

Reyndar hef ég lengi verið þeirrar skoðunar að okkur skorti farveg til að sinna rannsóknarstarfi af þessu tagi. Hér hefur réttilega verið vísað til Ríkisendurskoðunar og annarra sem hafa slíkt hlutverk með höndum en í mínum huga er í megindráttum um tvær mögulegar leiðir að ræða.

Annars vegar er það sem ég mundi vilja kalla ,,bresku leiðina``. Í Bretlandi var lengi rík hefð fyrir því að setja á fót nefndir, rannsóknarnefndir, sem skipaðar voru fulltrúum víðs vegar að úr þjóðfélaginu, frá menntastofnunum, úr atvinnulífi, frá atvinnurekendum og verkalýðshreyfingu. Þar settust menn og reyndu að brjóta erfið og viðkvæm álitamál til mergjar. Þessi hefð hefur eitthvað daprast í Bretlandi í seinni tíð. Margrét Thatcher, sem lengi hélt þar um stjórnartauma, var ekki gefin fyrir að kalla til alla málsaðila, hún var meira gefin fyrir að skipa einsleita hjörð til að gaumgæfa málin. Þetta er engu að síður rík hefð sem Bretar hafa búið við.

Við höfum þurft að treysta á Alþingi, okkur sjálf og stofnanir sem undir Alþingi heyra. Ég held að það sé mjög mikilvægt að styrkja þetta hlutverk þingsins. Sem dæmi um mál sem hefði þurft að fá slíka skoðun vil ég nefna breytingar sem gerðar voru í landinu á rafmagnseftirliti í tengslum við kerfisbreytingar sem gerðar voru þegar eftirlitið var einkavætt á sínum tíma, með afleiðingum sem hafa valdið mörgum miklum áhyggjum og verið gagnrýndar. Niðurstaðan varð sú eftir umræðu hér á Alþingi, aftur og ítrekað, að sett var á laggirnar nefnd sem átti að fara í saumana á þessum málum en reyndin varð sú að hæstv. ráðherra, sem hafði yfirumsjón þessa málaflokks, andaði niður í hálsmálið á nefndarmönnum frá því að hún hóf störf og þar til hún lauk starfi sínu. Hygg ég að störf hennar og niðurstöður beri þess nokkurn vott.

Ég tek því undir að við eigum að efla sjálfstætt rannsóknarhlutverk Alþingis og mæli eindregið með því að þetta mál hljóti samþykki hið allra fyrsta.