Yfirlýsing frá þingflokki Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 15:18:57 (4267)

2002-02-07 15:18:57# 127. lþ. 73.93 fundur 321#B yfirlýsing frá þingflokki Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs# (um fundarstjórn), ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 127. lþ.

[15:18]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Vegna samskipta þingflokks Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs og einstakra þingmanna hans við hæstv. forseta Alþingis, Halldór Blöndal, les ég eftirfarandi yfirlýsingu:

,,Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs lýsir miklum vonbrigðum með hvernig samskipti þingflokksins og einstakra þingmanna hans við forseta Alþingis Halldór Blöndal hafa þróast um skeið. Þrjá eftirtalda atburði ber hæst í þeim efnum frá undanförnum dögum:

Fimmtudaginn 31. janúar sl. fór forseti Halldór Blöndal í forsetastól kl. 19.00 og frestaði fyrirvaralaust og án nokkura undangenginna tilrauna til að leita samkomulags, umræðum um þingsályktunartillögu þingflokks Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs um þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls. Þetta gerði forseti þó rætt hefði verið um að ljúka umræðunni á þeim degi og allt útlit fyrir að það tækist án þess að efna til kvöldfundar. Forseti hafði að engu óskir formanns þingflokksins um að æskilegt væri að ljúka umræðunni.

Þriðjudaginn 5. febrúar þegar loks var fram haldið umræðum um fyrrnefnda þingsályktunartillögu gerðist það að 1. þingmaður Norðurlandskjördæmis eystra, Halldór Blöndal, sem jafnframt er forseti Alþingis veittist með ómaklegum og að mati þingflokksins ósæmilegum hætti að þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs. Voru þeir bornir þeim sökum að vinna ,,annaðhvort gegn betri vitund eða viljandi``, eins og þingmaðurinn kaus að orða það, gegn því að íslenska þjóðin gæti bætt sín lífskjör og að þingmennirnir og formaður flokksins sérstaklega stæðu á móti hagsmunum Austfirðinga.

Miðvikudaginn 6. febrúar gerðist svo sá fáheyrði atburður að forseti Halldór Blöndal kaus að víta Ögmund Jónasson, formann þingflokks Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, fyrir þær sakir að hafa reynt að koma málefnalegri leiðréttingu að í frammíkalli og síðan kallað fram í og sagt að forseti Alþingis þekkti vel til háttvísi. Getur hver dæmt fyrir sig hvort vítur hafi verið við hæfi af þessu tilefni borið saman við allar þær hörðu orrahríðir sem fram hafa farið og öll þau stóru orð sem fallið hafa á Alþingi undanfarna áratugi án þess að gripið hafi verið til þess að víta þingmenn.

Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs telur mikilvægt að forseti Alþingis kappkosti jafnan að halda aðgreindum persónulegum stjórnmálaskoðunum sínum og ágreiningi við aðra þingmenn þeirra vegna og fundarstjórn sinni sem forseti Alþingis. Þingflokkurinn telur að forseti hafi farið offari í fundarstjórn sinni sl. miðvikudag og að ummæli formanns þingflokks Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, Ögmundar Jónassonar, hafi fráleitt gefið tilefni til þess að vera vítt.``