Yfirlýsing frá þingflokki Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 15:23:00 (4269)

2002-02-07 15:23:00# 127. lþ. 73.93 fundur 321#B yfirlýsing frá þingflokki Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs# (um fundarstjórn), SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 127. lþ.

[15:23]

Sigríður A. Þórðardóttir:

Herra forseti. Ég lýsi vanþóknun á viðbrögðum Vinstri grænna í dag. Mér finnst það mjög mikið umhugsunarefni að störf hæstv. forseta Halldórs Blöndals skuli rædd að honum fjarstöddum. Hann er með fjarvistarleyfi í dag. Mér hefði þótt það stórmannlegra, ef þingflokkur Vinstri grænna vildi ræða þessi mál, að þau væru þá rædd að forseta viðstöddum.

Ég verð að segja að þingmaðurinn sem í hlut átti hafði unnið til þess með frammíköllum að vera víttur skv. 89. gr. þingskapa. Mér finnst það vera að bíta höfuðið af skömminni að flytja yfirlýsingu af því tagi sem hér hefur verið gert í dag.

Ég verð líka að viðurkenna að mig undraði að hér skyldu vera rakin önnur efni, bæði frá því í síðustu viku og eins í þessari, þar sem annars vegar var fundið að því að fundi hefði verið frestað um mál á fimmtudegi þegar ekki hafði verið um það rætt að þá yrði kvöldfundur. Það er alvanalegt í þinginu að svo sé staðið að málum og alls ekkert athugavert við það. Hins vegar verða þingflokkur og þingmenn Vinstri grænna, eins og við öll í þinginu, að sæta því að ekki sé víst að allir séu sammála málflutningi þeirra. Það er málfrelsi í þinginu og við höfum öll fullan rétt til að hafa skoðanir á málflutningi þeirra, jafnt hæstv. forseti Halldór Blöndal sem aðrir þingmenn í þessum sal.

Ég lýsi fullkominni vanþóknun á því að þetta skuli tekið upp með þessum hætti í þinginu í dag.